Tröllslæti og heyrnarskemmdahávaði

Bubbi Morthens naut fádæma vinsælda meðal þróttmikilla æskumanna á Íslandi …
Bubbi Morthens naut fádæma vinsælda meðal þróttmikilla æskumanna á Íslandi árið 1982. Innhringjari hefur án efa ekki sett hann á fóninn. Þorkell Þorkelsson

„Þúsundir manna spyrja sig undrandi hvað sé að gerast í tónlistarflutningi ríkisútvarpsins. Ekki er annað sýnna en kulnaður sé sá eldur menningar sem þeirri stofnun var í öndverðu ætlað að kynda.“

Þannig komst manneskja með nafnnúmerið 7167-6625 að orði í símtali til Velvakanda í Morgunblaðinu árið 1982. Óhætt er að segja að viðkomandi hafi borið mál sitt upp af íþrótt og brennandi ástríðu. Höldum áfram:

„Þar tröllríður úr öllu hófi svokallað popp, rokk og nýbylgjurokk, bárujárns- og gaddavírspopp og hver fj ... allt þetta heitir. Þetta er ömurlegt. Sami síbyljutakturinn, sömu öskrin og óhljóðin, tröllslæti sem misþyrma öllu skynsamlegu viti. Fjármögnuð múgsefjun auvirðilegs peningavalds sem einskis svífst að trekkja fé frá lítt þroskuðum unglingum. Þarna er ekki hógværðinni fyrir að fara, ekki siðmenntaðri gleði, allt höfðar þetta til ofstækis, múgsefjunar, tryllings og ærandi heyrnarskemmdahávaða.“

Og 7167-6625 hélt áfram:

„Alltaf virðast vera til nægir peningar til að kaupa frá útlöndum hverja afskræmisöskursveitina á fætur annarri, þá vantar ekki gjaldeyrinn. En hverjum þykist ríkisútvarpið vera að þjóna? Varla menningunni – eða er hún virkilega komin niður á þetta stig? Þeir segja: Fólkið vill þetta, fjöldinn vill þetta. Er ekki nokkuð þungur dómur að stimpla þær tugþúsundir fullþroska miðaldra og eldra fólks, sem hefur skömm á þessum tröllslátum sem áhangendur þessara fíflaláta. Vitanlega á sá hópur sem á skömmu aldursskeiði dýrkar þessi firn sinn afmarkaða rétt – en hann á engan rétt til að misþyrma og ofbjóða öðrum hlustendum langt umfram allt hóf og sanngirni.“

Gluggað er í gömul bréf og símtöl til Velvakanda í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en dálkurinn hóf göngu sína árið 1951 og var lengi einn besti spegillinn á sálarlíf þessarar þjóðar. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka