330 manns koma fram í nýjustu kvikmynd Rúnars Rúnarssonar, Bergmáli, sem frumsýnd verður 20. nóvember næstkomandi. Myndin er óvenjuleg að því leyti að hún er ofin úr 58 örsögum og samfélagið sjálft er í aðalhlutverki, í aðdraganda jóla.
„Upp á raunveruleikatilfinninguna vildum við ekki nota þekkta leikara og allir koma fram undir eigin nafni,“ segir Rúnar. „Þetta fólk kemur úr ýmsum áttum. Við eigum talsvert af menntuðum leikurum sem ekki vinna sem slíkir og það færði ég mér í nyt. Þarna er líka fólk úr mínu nærumhverfi, vinir og fjölskylda. Fram að þessu hef ég alltaf fundið mína leikara sjálfur en fann fljótt að það var ekki vinnandi vegur að þessu sinni. Þess vegna fékk ég Vigfús Þormar og Thelmu hjá Doorway, sem sérhæfa sig í að finna fólk fyrir bíómyndir, til liðs við mig og þau gerðu kraftaverk.“
Myndin er tekin upp um land allt enda vildi Rúnar endurspegla íslenskt samfélag í heild, en ekki bara höfuðborgarsvæðið, jafnvel þótt þorri þjóðarinnar búi þar um slóðir. Sjálfum þykir honum mikið til landsbyggðarinnar koma. „Ég bjó í átta ár í Danmörku og þegar ég kom heim aftur sá ég fjöllin miklu betur. Það getur verið hollt að færa sig um set, hvort sem það er innanlands eða til útlanda, til að brjóta upp sjóndeildarhringinn og verða ekki samdauna umhverfi sínu. Ég held að við kunnum ekki alltaf að meta fegurðina í kringum okkur.“
Myndin var öll tekin upp fyrir síðustu jól. Venjulegir tökudagar með tökuliði og tilheyrandi voru átján talsins en Rúnar hefur enga tölu á öllum hinum dögunum, þar sem allt niður í þrjár manneskjur voru á ferð við að taka upp efni. „Eins og maður þarf stundum á öllu tiltæku liði, græjum, trukkum og slíku að halda þá getur verið erfitt að bíða eftir fullkomnu ljósi og fá óvana leikara, til dæmis börn, til að slaka á og svo framvegis við þær aðstæður. Þess vegna tvískiptum við þessari vinnu, með góðum árangri.“
– Sagt er að allir geti sungið, með réttri þjálfun og æfingu. Á sama við um leiklist?
„Já, það geta allir leikið. Það þarf bara að skapa aðstæður til að fólk geti verið það sjálft. Auðvitað geta ekki allir unnið með allt litrófið, ekkert frekar en allir geta sungið allan skalann, og lærðir leikarar geta bætt við með tækninni sem þeir búa yfir. En í grunninn geta allir leikið.“
Nánar er rætt við Rúnar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.