Fjólublár litur lýsir upp nokkrar byggingar hér á landi í tilefni af Alþjóðlegum degi fyrirbura í dag. Harpa, Perlan, Háskóli Íslands og Hof á Akureyri kveikja öll á fjólubláum ljósum til að vekja athygli á málefnum fyrirbura en fyrirtækið RóRó stendur að vitundarvakningunni.
„Markmiðið með deginum er að vekja athygli á fyrirburafæðingum og þeim erfiðleikum sem fyrirburar og fjölskyldur þeirra þurfa að glíma við. Um 15 milljónir barna fæðast fyrir tímann á hverju ári, eða um 1 af hverjum 10 börnum sem fæðast í heiminum. RóRó telur meira mega fjalla um þetta málefni á Íslandi og margt hægt að gera betur fyrir fyrirbura úti um allan heim.“ Þetta kemur fram í tilkynningu.
Alþjóðlegur dagur fyrirbura er mikilvægur hluti af góðgerðarstefnu RóRó og hefur fyrirtækið gefið dúkkur til fyrirbura úti um allan heim allt frá því dúkkan kom á markað 2015. Eyrún Eggertsdóttir, stofnandi RóRó, hannaði Lúlludúkkuna. Lúlla spilar upptöku af hjartslætti og andardrætti móður í allt að 12 klukkustundir og var hönnuð með aðstoð lækna, hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra á Íslandi. Dúkkan er nú notuð af börnum á öllum aldri úti um allan heim og stuðlar hún einnig að betri líðan og auknum svefngæðum hjá eldri börnum.
Hægt að styrkja vökudeildina með því að leggja inn á gjafasjóð Landspítalans og skrifa í skýringu „vaka“.
Reikningsnúmer sjóðsins er 513-26-22241 og kennitala 640394-4479.