Svein Harald Øygard, fyrrverandi seðlabankastjóri á Íslandi, telur víst að norsk lögregluyfirvöld rannsaki Samherjamálið. Hann óttast að íslenskir fjárfestar muni eiga erfiðara um vik vegna þess orðsporshnekkis sem málið hefur á Ísland og íslenskt viðskiptalíf. Svein Harald Øygard var gestur í Silfrinu í Sjónvarpinu.
Sagðist Øygard nokkuð viss um að norski bankinn DNB muni rannsaka málið til hlítar sem og efnahagsbrotadeild norsku lögreglunnar. Í þeirri rannsókn verði færslur á reikningum Samherja hjá norska bankanum raktar og kannað hvort einhver skuggastarfsemi hafi verið á Kýpur þar sem félög Samherja voru skráð.
Øygard segist óttast að málið hafi víðtækari áhrif á íslenskt viðskiptalíf. Það skaði orðspor Íslands, kunni að hafa áhrif á aðgengi íslenskra fjárfesta á heimsmarkaði og draga úr erlendum fjárfestingum á Íslandi. „Það er mjög mikilvægt fyrir Ísland að taka til, taka forystu í þessu og þess vegna væru samhæfðar aðgerir mjög til bóta,“ segir Øygard.