Króna fannst í rusli og fékk nýtt heimili

Kettlingurinn Króna.
Kettlingurinn Króna. Ljósmynd/Aðsend

Starfsmanni Krónunnar á Hvolsvelli brá heldur betur í brún á mánudaginn í síðustu viku þegar hann hugðist henda rusli í gám á bak við verslunina. Upp úr kassa, sem stóð við gáminn, stökk lítill hræddur kettlingur og hljóp beinustu leið inn í nærliggjandi verslun.

„Við fórum á eftir honum og náðum honum þar,“ segir Guðmundur Jónsson, verslunarstjóri Krónunnar á Hvolsvelli. Hann var svo hræddur, litla greyið, og það tók smá tíma að róa hann niður.“

Kettlingurinn Króna lifir nú sældarlífi eftir að hafa fundist við …
Kettlingurinn Króna lifir nú sældarlífi eftir að hafa fundist við ruslagám á bak við verslun Krónunnar á Hvolsvelli. Ljósmynd/Aðsend

Trúi því ekki upp á nokkurn mann

Guðmundur segir að enginn hafi orðið var við kettlinginn fyrr en hann stökk upp úr kassanum, og segist eiga erfitt með að gera sér í hugarlund að einhver hafi ætlað að henda honum eins og hverju öðru sorpi. „Ég bara trúi því ekki upp á nokkurn mann,“ segir Guðmundur. „Mér sýnist að hann sé um það bil 5-6 vikna gamall og hann var vel haldinn og hress, hvorki horaður né skítugur, þegar við fundum hann. Það bendir ekki til þess að þetta hafi verið villiköttur.“

Kettlingurinn Króna.
Kettlingurinn Króna. Ljósmynd/Aðsend

Auglýst var eftir eiganda kettlingsins á Hvolsvelli og í nærsveitum en enginn gaf sig fram. Guðmundur ákvað því að taka litla greyið að sér og segir kettlinginn, sem er læða, vera kærkomna viðbót í dýrasafnið á heimilinu, en þar voru fyrir hundur og köttur. „Eldri kötturinn var reynar ekkert sérstaklega hrifinn til að byrja með. En hundurinn elskar kettlinginn,“ segir Guðmundur. „Og krakkarnir mínir elska hann, enda er þetta svakalegt krútt.“

Króna hefur það býsna gott á nýja heimilinu.
Króna hefur það býsna gott á nýja heimilinu. Ljósmynd/Aðsend

Og hvað skyldi þetta svakalega krútt svo heita? „Króna. Það kom ekkert annað nafn til greina,“ svarar Guðmundur, sæll með nýja fjölskyldumeðliminn.

Kettlingurinn Króna.
Kettlingurinn Króna. Ljósmynd/Aðsend



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert