Telja hægt að stöðva flóttann úr stéttinni

Hjúkrunarfræðingar að störfum.
Hjúkrunarfræðingar að störfum. mbl.is/Golli

„Við höfum oft þurft að standa í samningaviðræðum gegnum tíðina og orðið að berjast fyrir okkar kjörum. Við höfum einnig verið lengur með lausa samninga en í þessari lotu núna. Okkar saga hefur einkennst af mikilli kjarabaráttu,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, en í dag eru nákvæmlega 100 ár liðin síðan stofnað var fyrsta stéttarfélag hjúkrunarfræðinga, sem fékk heitið Félag íslenskra hjúkrunarkvenna.

Hjúkrunarfræðingar hafa verið með lausa samninga síðan 31. mars sl. og lítið þokast í viðræðunum. Deilunni hefur ekki verið vísað til sáttasemjara en samninganefndir ríkis og sveitarfélaga hafa fyrst viljað klára samninga við félög BHM og BSRB. Alls eru um 3.300 hjúkrunarfræðingar starfandi í landinu en félagsmenn eru yfir 4.000.

„Við erum enn að tala saman, þó að hægt gangi. Við leggjum mikla áherslu á styttingu vinnuvikunnar og betra starfsumhverfi en tveir þriðju okkar félagsmanna eru í vaktavinnu. Við finnum það vel hjá okkar fólki að það gætir vaxandi óþolinmæði. Samningar hafa verið lausir síðan í mars og nú þegar komið er inn í nóvember hefur ekki nógu mikið gerst á þessu tímabili,“ segir Guðbjörg.

Sameina deildir vegna skorts á hjúkrunarfræðingum

Mikið álag á hjúkrunarfræðinga og eilíf umræða um niðurskurð á Landspítalanum hefur komið niður á líðan þeirra og margir horfið til annarra starfa. „Við finnum svo sannarlega fyrir þessu og margir hafa leitað til okkar með sín mál. En þetta er ekkert að gerast á einni nóttu, þróunin hefur verið svona yfir lengri tíma vegna fækkunar í stéttinni. Núna er Landspítalinn til dæmis að sameina deildir vegna skorts á hjúkrunarfræðingum,“ segir Guðbjörg og vísar til nýlegrar sameiningar krabbameinslækningadeildar og blóðlækningadeildar. „Þetta er ekkert fyrsta tilfellið og á eflaust ekki eftir að verða það síðasta ef svona heldur áfram.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert