„Hugmyndin er sú að Ísland sé staðurinn þar sem kvenleiðtogar vilja koma saman út af því sem hér hefur verið gert, til þess að fá hvatningu, til þess að fá hugmyndir, til þess að leita lausna og til þess að bæta heiminn,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Women Political Leaders (WPL), um Heimsþing kvenleiðtoga sem hófst formlega í Hörpu í dag. mbl.is kom við í Hörpu og ræddi við Hönnu Birnu um umfang og þýðingu heimsþingsins.
Um 450 kvenleiðtogar frá um 80 löndum eru staddar á heimsþinginu sem stendur yfir í tvo daga. Þetta er í annað sinn sem þingið fer fram hér á landi en ríkisstjórn Íslands og Alþingi gerðu samkomulag við WPL í fyrra um að efna til Heimsþings kvenleiðtoga á Íslandi ár hvert næstu fjögur ár.
„Þingið gengur út á það að blanda saman konum úr stjórnmálum, viðskiptalífi, listum, fjölmiðlum og tæknigeiranum og hvaðan sem við getum fundið öfluga kvenleiðtoga,“ segir Hanna Birna.
Ákvörðunin um að halda þingið hér á landi fjögur ár í röð var ekki síst vegna mikils áhuga sem kom fram á stöðu Íslands og árangri þegar kemur að jafnrétti kynjanna á fjölmennum ársfundi WPL sem haldinn var á Íslandi fyrir þremur árum.
Konurnar sem sækja þingið hafa fjölbreyttan bakgrunn og eru á öllum aldri, allt frá hinni 10 ára Bana al-Abed, sýrlenskri stúlku sem öðlaðist heimsfrægð með færslum sínum á Twitter frá Aleppo þegar umsátrið um borgina stóð sem hæst, til Vigdísar Finnbogadóttur, fyrsta þjóðkjörna kvenforseta heims, sem er jafnframt verndari heimsþingsins.
Hanna Birna segir fjölbreytnina skipta máli, sérstaklega í ljósi fyrirmynda. „Fyrirmyndir þegar kemur að jafnrétti finnast ekki bara eftir aldri. Fyrirmynd getur verið 10 ára stúlka sem ákvað að stíga út fyrir alla þægindaramma og gera hluti sem eru einstakir. Og fyrirmynd getur verið Vigdís Finnbogadóttir, sem er auðvitað verndari þessa verkefnis, og endalaust gefur af sér til annarra kvenna. Við erum líka að undirstrika það að við erum að tala um stelpur, framtíðina og konur á hvaða aldri sem þær eru.“
Tilgangurinn er að brjótast út úr þeirri staðalmynd að kvenleiðtogi sé hvít, miðaldra kona. „Svona sirka eins og ég er. Við erum að brjótast út fyrir það og segja nei, það er ekki þannig,“ segir Hanna Birna.
Þingið er hugsað sem samtal milli allra þátttakenda, sem allir fá boð á þingið. „Hámarkið sem við ráðum við er 450 gestir,“ segir Hanna Birna. Blaðamaður hitti hana í Hörpu í dag og óhætt er að segja að skynja mátti sköpunarkraftinn og orkuna, enda kannski ekki annað hægt þegar um 450 kvenleiðtogar koma saman.
En hvað er það sem leiðir allar þessar konur saman?
„Þessar konur fá alltof fá tækifæri til að setjast niður saman, lýsa stöðunni og leita sameiginlegra leiða og deila reynslunni. Þetta eru konur sem eru vanar því að sitja eina við borðið og hafa gert það í mörg mörg ár, þrá það að fá að sitja við sama borð þar sem eru konur. Við það, finnst mér, losnar úr læðingi ákveðinn kraftur hér. Þær finna orkuna og jákvæðnina sem er hérna gagnvart verkefninu,“ segir Hanna Birna.
Staðsetningin skiptir einnig máli að mati Hönnu Birnu sem segir árangur Íslands í jafnréttismálum óneitanlega vekja athygli, en síðustu tíu ár hefur hvergi mælst meiri jöfnuður milli kynjanna en á Íslandi samkvæmt mælingum Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum).
Hanna Birna segir að það beri þó að taka þeirri niðurstöðu með varúð. „Þetta segir minna um Ísland og meira hvað staðan er slæm annars staðar. Við erum ekkert jafnréttisparadís eða búin að öllu, svo langt því frá, og þess vegna getum við ímyndað okkur hvernig staðan er annars staðar.“
Einkenni heimsþingsins í ár eru að mati Hönnu Birnu að kvenleiðtogar vilja koma því til skila að það er komin þreyta í biðina eftir aðgerðum og segir hún eftirspurn hafa myndast eftir aðgerðum í jafnréttismálum um heim allan. „Það er komin þreyta í að útskýra af hverju þetta þarf að breytast. Allar tölur segja okkur að þetta verður að breytast, allar hagstærðir segja okkur að heimurinn verður betri en samt gerist það ekki. Núna er fókusinn á að ekki útskýra af hverju við þurfum breytingar heldur hvernig á að gera þær, það er næsti staður að fara á. Samtalið er bara um hvernig, hvernig getum við gert þetta að veruleika?“
Hanna Birna segir samtökin sem skipuleggja þingið, Women Political Leaders, telja að hugmyndir kvennanna sem eru saman komnar í Hörpu í dag og á morgun séu hugmyndir sem bæti og breyti samfélaginu. „Hér koma fullt af fyrirtækjum, stofnunum og ríkisstjórnum saman og segja: „Við ætlum að gera þetta og bæta samfélagið og við ætlum að koma aftur eftir ár og segja hvernig gekk.“ Þannig þetta gengur líka út á það að fara í framkvæmdir en ekki bara tala um það,“ segir Hanna Birna.
Hún telur það jafnframt mikilvægt að Ísland sýni frumkvæði þegar kemur að jafnréttismálum. „Ég held að það séu ótrúlega mikil sóknarfæri í því fyrir Íslanda að vera leiðtogi á þessu sviði.“