„Það er kominn biðlisti hjá okkur í fyrsta sinn. Það er hræðileg staða. Fólk sem er í sjálfsvígshættu á ekki að þurfa að bíða. Okkur bráðvantar fleiri fagmenntaða til starfa og meira fjármagn. Við viljum ekki vísa fólki frá.“
Þetta segir sagði Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píeta-samtakanna sem vinna að forvörnum gegn sjálfsvígum. Fagfólk sem hjá þeim starfar er geðhjúkrunarfræðingar, sálfræðingar og félagsráðgjafar. Samtökin starfa með leyfi landlæknis.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag sagði Kristín að þeim fjölgaði stöðugt sem leituðu aðstoðar hjá Píeta-samtökunum. Áberandi fjölgun hefur orðið í þremur hópum, það er hópi ungra karla 18-25 ára, karla 55 ára og eldri og kvenna sextugra og eldri.
Píeta-samtökin voru stofnuð í apríl 2018. Kristín sagði að framan af hefðu aðallega konur leitað til samtakanna en nú væru kynjahlutföllin orðin nokkuð jöfn. Hún kvaðst vera ánægð með að jafnt eldri konur og eldri karlar væru farin að leita sér aðstoðar vegna sjálfsvígshugsana.