Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir ákveðin atriði í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar til að efla traust á íslensku atvinnulífi vekja athygli sína.
„Það er ágætt að ríkisstjórnin hafi loksins brugðist við með einhverjum hætti eftir að hafa skilað auðu í heila viku,“ segir hann, spurður út í áætlunina.
„Það er sérkennilegt að nokkrum dögum eftir að stjórnarmeirihlutinn fellir tillögu Samfylkingarinnar um aukið fjármagn til ríkissaksóknara og skattrannsóknarstjóra boðar hann nákvæmlega það sama.“
Logi Már segir spurningar einnig vakna um að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, skuli hafa setið fund ríkisstjórnarinnar vegna aðgerðanna og að hann skuli taka þátt í viðbrögðum vegna Samherjamálsins þrátt fyrir að segjast vera vanhæfur í þeim.
„Ég held að hann sé í ákveðnum trúverðugleikavanda.“
Logi Már segir einnig skrítið að ríkisstjórnin taki ekki frumkvæði í að ráðast gegn hugsanlegu orðsporshnekki erlendis. Umfjöllunin bæði í Noregi og í blöðum eins og The Guardian gefi tilefni til þess, auk þess sem fjármálaráðherra eigi að draga til baka sín ummæli í The Guardian um að rót vandans sé spillt kerfi í Namibíu. „Auðvitað er rót vandans að bera mútur á fólk.“