Fasteignafélagið Þingvangur hefur síðustu vikur selt um 30 íbúðir á Brynjureit í miðborg Reykjavíkur. Verðmæti viðskiptanna er vel á annan milljarð króna.
Þegar Morgunblaðið skoðaði söluvef verkefnisins um miðjan október voru fjórar íbúðir skráðar seldar. Síðdegis í gær var búið að merkja við 37 seldar íbúðir. Þar af eru 27 af 49 íbúðum seldar á Hverfisgötu 40-44.
Í umfjöllun um fasteignaviðskipti þessi í Morgunblaðinu í dag segir Pálmar Harðarson, framkvæmdastjóri Þingvangs, markaðinn hafa tekið við sér í haust eftir rólegt sumar. Fjárfestar og fyrstu kaupendur hafi verið í hópi kaupenda.
Fjárfestarnir horfi meðal annars til þess að íbúðir séu betri fjárfesting en að geyma peninga á bankareikningum með lágum vöxtum. Þá vilji sumir af skattaástæðum fjárfesta fyrir áramót. Það henti þeim mjög vel að kaupa íbúðir sem séu tilbúnar til afhendingar.