Peningaþvættismál sem hljóðar upp á hundruð milljóna króna og verið hefur til rannsóknar hjá héraðssaksóknara síðan í lok september hefur vaxið í umfangi. Bæði hefur grunuðum í málinu fjölgað, auk þess sem fjárhæðir hafa hækkað.
Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við mbl.is. Greint var frá því í lok september að þrír sættu gæsluvarðhaldi og tugir væru grunaðir í málinu, en peningaþvættið er talið hafa staðið yfir á þriðja ár. Það fór þannig fram, samkvæmt heimildum RÚV, sem greindi frá málinu á sínum tíma, að fólkið fór ítrekað í banka og skipti um 1 milljón króna yfir í evrur í hvert sinn.
„Það hefur vaxið frekar í umfangi en hitt og er enn þá til rannsóknar og það er nokkuð mikil vinna eftir áður en það klárast,“ segir Ólafur Þór.
Allir grunuðu eru ungir Íslendingar, á milli tvítugs og þrítugs. Enginn sætir gæsluvarðhaldi á þessu stigi málsins, enda er gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarhagsmuna alltaf stillt í hóf, að sögn Ólafs Þórs. Sá sem lengst sætti gæsluvarðhaldi sætti því í um viku.