Ríkisstjórn Íslands ákvað á fundi sínum í morgun að grípa til sjö aðgerða til að auka traust á íslensku atvinnulífi.
Aðgerðirnar eru eftirtaldar: Að auka gagnsæi í rekstri stærri óskráðra fyrirtækja, auka gagnsæi í rekstri stórra sjávarútvegsfyrirtækja, stuðla að úttekt og úrbótum á fiskveiðum á alþjóðavettvangi, ljúka endurskoðun á skilgreiningu á tengdum aðilum fyrir áramót, tryggja viðbótarfjárfestingar til skattrannsókna, efla varnir gegn hagsmunaárekstrum og mútubrotum og fylgjast með viðbrögðum erlendis frá.
Þetta kemur fram í tilkynningu.
Undirbúningur er hafinn að lagafrumvarpi um ríkari upplýsingaskyldu hlutfallslega stórra fyrirtækja sem geta haft kerfislæg áhrif í íslensku efnahagslífi. Til skoðunar er að gera ríkari kröfur til slíkra fyrirtækja um upplýsingar um rekstur, efnahag og góða stjórnarhætti. Meðal annars er höfð hliðsjón af kröfum sem gerðar eru til fyrirtækja sem skráð eru í kauphöll.
Kröfur um aukið gagnsæi munu ná til fyrirtækja í öllum atvinnurekstri. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur óskað eftir því að við þessa vinnu verði tekið til sérstakrar skoðunar hvort gera þurfi enn ríkari kröfur um gagnsæi til stærri sjávarútvegsfyrirtækja, að því er segir í tilkynningunni.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun hafa frumkvæði að því að Alþjóðamatvælastofnunin (FAO) vinni úttekt á viðskiptaháttum útgerða sem stunda veiðar og eiga í viðskiptum með aflaheimildir, þar á meðal í þróunarlöndum.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur óskað eftir því að nefnd sem hann skipaði í mars skili tilllögum um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni fyrir 1. janúar. Þá er að vænta tillagna frá nefndinni á næstu vikum um bætt eftirlit með fiskveiðum og með vigtun sjávarafla.
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra verði gert kleift að auka mannafla tímabundið til að geta sinnt verkefnum á sem skjótastan og farsælastan hátt.
Hugað verður sérstaklega að fjármögnun rannsóknar héraðssaksóknara í tengslum við rannsókn embættisins á Samherjamálinu, en á fundinum var farið yfir umbótaverkefni sem hafa verið í vinnslu um aukið gagnsæi og traust.
Á fundinum var fjallað um Samherjamálið með tilliti til alþjóðasamskipta. Hvorki utanríkisráðuneytið, sendiskrifstofur né viðskiptafulltrúar hafa fengið teljandi fyrirspurnir eða athugasemdir frá stjórnvöldum annarra ríkja eða alþjóðlegum og svæðisbundnum samtökum, að því er segir í tilkynningunni.
Utanríkisráðuneytið fylgist með umfjöllun erlendis og hefur undirbúið viðbrögð vegna hugsanlegs orðsporshnekkis en hefur ekki talið ástæðu til að taka frumkvæði í sérstakri kynningu á málinu.