Lögregla og sjúkraflutningamenn eru nú við vinnu á vettvangi alvarlegs umferðarslyss á Þjóðvegi 1 skammt frá bænum Viðborðsseli í Sveitarfélaginu Hornafirði en þar varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið.
Fram kemur á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi að tilkynnt hafi verið um slysið um klukkan 17:30. Vegurinn er lokaður allri umferð en unnt verður að hleypa henni fram hjá vettvangi með umferðarstjórnun mjög fljótlega. Búast má við umferðartöfum á vettvangi fram eftir kvöldi.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa er á leið á vettvang ásamt tæknideildarmönnum lögreglu höfuðborgarsvæðisins til vinnu við vettvangsrannsókn.