Ekki vænlegt að endurnýja Reykjavíkurflugvöll

Við endurnýjun Reykjavíkurflugvallar yrði nauðsynlegt að lengja hann yfir Suðurgötu …
Við endurnýjun Reykjavíkurflugvallar yrði nauðsynlegt að lengja hann yfir Suðurgötu og leggja hann út í Fossvog. mbl.is/Árni Sæberg

Kostnaður við endurnýjun Reykjavíkurflugvallar gæti numið 15 til 20 milljörðum króna og nauðsynlegt yrði að lengja hann yfir Suðurgötu og leggja hann út í Fossvog. Af þessum sökum er ekki vænlegt að endurnýja flugvöllinn.

Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var fyrir samgönguráðuneytið og kynnt í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í morgun og fjallað er um í Speglinum á RÚV. Þar segir að samgönguráðherra hafi í fyrra falið starfshópi undir stjórn Eyjólfs Árna Rafnssonar að útfæra hugmyndir um flugvallarkosti á suðvesturhorni landsins. 

Í skýrslunni, sem líklega verður kynnt og opinberuð á mánudag, er helst litið til þess að flugvöllur verði lagður í Hvassahrauni. Það gæti þó tekið allt að 20 ár og myndi kosta um 40 milljarða, eða tvöfalt meira en að endurnýja Reykjavíkurflugvöll, en það yrði þá kostnaður við flutning innanlandsflugs í hraunið og að flugvöllurinn geti gegnt hlutverki varaflugvallar.

Hins vegar yrði kostnaður aldrei undir 300 milljörðum ef byggður yrði fullkominn millilanda- og innanlandsflugvöllur í Hvassahrauni.

Í skýrslunni var sá kostur að flytja innanlandsflug til Keflavíkurflugvallar jafnframt skoðaður, en kostnaður við það yrði um 44 milljarðar, eða dýrara en að byggja nýjan innanlandsflugvöll í Hvassahrauni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka