Fimmta hvert heimili á leigumarkaði undir lágtekjumörkum

Árið 2018 voru 20% heimila á leigumarkaði undir lágtekjumörkum en …
Árið 2018 voru 20% heimila á leigumarkaði undir lágtekjumörkum en 6% heimila í eigin húsnæði. mbl.is/Eggert

Níu prósent íbúa hér á landi voru undir lágtekjumörkum í fyrra, eða um 31.400 manns sem bjuggu á um 16 þúsund heimilum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum úr lífskjararannsókn Hagstofu Íslands

Niðurstöðurnar sýna að í fyrra var fimmta hvert heimili á leigumarkaði undir lágtekjumörkum en lágtekjuhlutfall er hlutfall einstaklinga sem eru með ráðstöfunartekjur undir lágtekjumörkum. 

Frá upphafi mælinga árið 2004 hefur lágtekjuhlutfallið verið hærra meðal leigjenda en meðal fólks sem býr í eigin húsnæði. Árið 2018 voru 20% heimila á leigumarkaði undir lágtekjumörkum en 6% heimila í eigin húsnæði. Frá því mælingar hófust hefur hlutfall leigjenda undir lágtekjumörkum verið 25% að meðaltali, lægst fór það í 20% árin 2014 og 2018 en hæst fór það í 32% árið 2009.

Hlutfall eigenda undir lágtekjumörkum fór hæst í 11% árið 2007 en var lægst árin 2011 og 2012 þegar það var um 5%. 

Þegar litið er til skorts á efnislegum gæðum reyndust 4% einstaklinga búa við skort og 0,7% búa við verulegan skort árið 2018. Þetta er lækkun frá árinu 2016 þegar 6,1% bjó við skort og 1,9% við verulegan skort efnislegra gæða.

Hlutfallslega færri voru undir lágtekjumörkum hérlendis árið 2018 en á hinum Norðurlöndunum þar sem hlutfallið var 16-18%. Þá búa hlutfallslega fáir við skort á Íslandi í evrópskum samanburði og á það einnig við um hin Norðurlöndin. Að meðaltali bjuggu 15% við skort á efnislegum gæðum í ríkjum Evrópusambandsins árið 2017, hlutfallslega fæstir í Svíþjóð (4%) en flestir í Búlgaríu (44%).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert