Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók þátt í árlegu eldvarnarátaki í morgun og sýndi fimi sína með slökkvitæki þegar hún slökkti elda á skólalóð Kópavogsskóla. Sjálf hefur hún þurft að kalla til slökkvilið þegar eldur kviknaði í pottum í eldhúsinu hjá henni þar sem hún var að sjóða snuð.
„Ég hef verið sérlega passasöm síðan og það sem við höfum verið að læra hér í dag var líka mikilvægt fyrir mig því það þurfa allir að fara yfir þetta reglulega á sínum heimilum. Hvort eldvarnir séu í lagi því þetta getur gerst á svipstundu,“ sagði Katrín í samtali við mbl.is.
Forsætisráðherra tók þátt í rýmingaræfingu og ræddi við börn í þriðja bekk skólans um forvarnir á heimilum. Eldvarnarátakið er að frumkvæði Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna í tilefni þess að svartasta skammdegið er í nánd þegar ljósa- og kertanotkun eykst. Þar var meðal annast sýnd ný teiknimynd um Loga og Glóð en fleiri skólar um land allt verða heimsóttir á næstunni.
Í heimsóknunum afhenda slökkviliðin börnum söguna af Loga, Glóð og Brennu-Vargi ásamt handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins og fleira fræðsluefni. Farið er yfir helstu atriði eldvarna á heimilinu með börnunum, svo sem um nauðsyn þess að hafa reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi á heimilinu. Reynslan sýnir að þessir fræðslufundir með börnunum eru áhrifrík leið til að fá þau og foreldra þeirra til að efla eldvarnir heima fyrir.