Bændasamtök Íslands hafa ákveðið að fresta um eina viku atkvæðagreiðslu meðal kúabænda um samkomulag við ríkið um endurskoðun á búvörusamningi. Er það gert vegna umræðu um efni samkomulagsins og áskorun 340 bænda um að samninganefndir setjist aftur að samningaborði. Boðað hefur verið til nýrrar atkvæðagreiðslu og hefst hún á hádegi 27. nóvember og stendur í slétta viku. Atkvæðagreiðslan er rafræn. Rúmlega 1.300 bændur eru á kjörskrá.