Lyfjaverð lækkað um helming frá aldamótum

„Hagfræðistofnun Háskóla Íslands er nýbúin að gefa út skýrslu sem …
„Hagfræðistofnun Háskóla Íslands er nýbúin að gefa út skýrslu sem fer mjög ofan í saumana á þessum markaði og hvernig hann hefur þróast á undanförnum árum. Hann hefur þróast á mjög hagstæðan hátt,“ segir Andrés, framkvæmdastjóri SVÞ, í samtali við mbl.is. Af vef velferðarráðuneytisins

Samanburður Medicine Price Index á lyfjaverði í 50 löndum gefur ekki rétta mynd af lyfjaverði á Íslandi, sem hefur lækkað um helming frá síðustu aldamótum og er aðeins 3% hærra en á Norðurlöndunum.

Þetta segja Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar- og þjónustu (SVÞ), og Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda.

Fjallað var um alþjóðlega úttekt Medicine Price Index á mbl.is í morgun, en samkvæmt henni er lyfjaverð einna hæst á Íslandi, af þeim 50 löndum sem úttektin tekur til. Þá sé verð á samheitalyfjum hér á landi er um 628% hærra en meðaltal í þess­um lönd­um og kvíðalyf rúm­um 345% dýr­ari.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar- og þjónustu.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar- og þjónustu. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Hagfræðistofnun Háskóla Íslands er nýbúin að gefa út skýrslu sem fer mjög ofan í saumana á þessum markaði og hvernig hann hefur þróast á undanförnum árum. Hann hefur þróast á mjög hagstæðan hátt,“ segir Andrés í samtali við mbl.is.

Lyfjakostnaður ekki hækkað í takt við önnur útgjöld til heilbrigðismála

Lyfjaverð á Íslandi sé á pari við það sem gengur og gerist á Norðurlöndunum. Þetta sýni fjölmargar skýrslur ríkisendurskoðunar og gögn frá OECD. „Nýjasti samanburðurinn frá 2018 eru gögn frá OECD sem sýna að jafnaði 3% verðmun. Það þarf ekki að koma á óvart miðað við smæð markaðarins.“

Jafnframt hafi Hagstofan reiknað það út fyrir Hagfræðistofnun HÍ að lyfjaverð á Íslandi hafi lækkað um helming frá síðustu aldamótum. Þá hafi SVÞ notað gögn úr skýrslu Hagfræðistofnunar til að skoða hlutfall lyfjakostnaðar af útgjöldum til heilbrigðismála síðastliðin 20 ár. „Þar má sjá að lyfjakostnaður er eini liðurinn sem ekki er að hækka í takt við önnur útgjöld.“

Á þessari töflu má sjá hvernig lyfjakostnaður á Íslandi hefur …
Á þessari töflu má sjá hvernig lyfjakostnaður á Íslandi hefur þróast í hlutfalli við önnur útgjöld til heilbrigðismála. Tafla/SVÞ

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2020 verða lyfjaútgjöld 8,3% af heilbrigðisútgjöldum. „Það er mjög mikilvægt að skoða hlutina eins og þeir eru og í samhengi,“ segir Andrés.

Sum lyfin ekki á markaði á Íslandi

Undir þetta tekur Jakob Falur, framkvæmdastjóri Frumtaka. „Þessi samanburður er mjög erfiður. Þessi lyf sem er verið að bera saman, sum þeirra eru ekki einu sinni á markaði hérna,“ segir Jakob og nefnir þar m.a. kvíðalyfið Xanax, sem í úttektinni er sagt 345% dýrara hér á landi en að meðaltali í lönd­un­um 50. Hér á landi sé það selt undir öðru merki og sé ekki til í þeirri stærð sem notuð sé til samanburðar í úttektinni, sem gefi þ.a.l. skakka mynd.

Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka.
Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka.

Jakob bendir jafnframt á að ekki sé tekið tillit til virðisaukaskatts í úttektinni, sem sé t.d. 0% á lyf í Svíþjóð á meðan lyf séu í hæsta þrepi virðisaukaskatts hérlendis. Þá sé álagningarkerfið hérlendis mjög sérstakt. „Það er álagt bæði fast gjald og prósenta, svo álagning getur verið mörg hundruð prósent á ódýrari lyf. Á dýrum lyfjum er álagningin hins vegar lítil.“

Jakob segir að með þessum hætti geti lyf, líkt og …
Jakob segir að með þessum hætti geti lyf, líkt og Alprazolam sem horft er til í þessum verðsamanburði, sem er á 153 kr. í heildsölu kostað 1.673 í smásölu. Úr gögnum Lyfjagreiðslunefndar

Samkvæmt úttektinni eru samheitalyf sérstaklega dýr hérlendis, eða 627,54% dýrari en að meðaltali í löndunum 50. „Í skýrslu Hagfræðistofnunar er bent á, eins og gert hefur verið áður, að helsti gallinn á okkar markaði er lítil framboð af samheitalyfjum og fyrir vikið lítil samkeppni. Í Danmörku er til dæmis mikið framboð, mikil samkeppni og lágt verð, en við sjáum það ekki hér.“

Hafa lagt til einföldun regluverks

„Ástæðan fyrir því getur verið margþætt, en þetta er náttúrulega pínulítill markaður og erfitt að komast inn á hann útaf alls kyns þröskuldum sem hið opinbera setur,“ segir Jakob.

Frumtök hafi lagt til við heilbrigðisyfirvöld einföldun regluverks til að auka virkni á markaðnum og auðvelda lyfjaframleiðendum að skrá lyf á Íslandi, sem geti aukið samkeppni og minnkað lyfjaskort.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert