Fyrstu tíu mánuði þessa árs sóttu um 700 manns um hæli hér á landi; langflestir þeirra eru fullorðnir karlmenn. Fjölmennasti hópur umsækjenda er ríkisborgarar frá Írak (128), Venesúela (101), Nígeríu (43), Afganistan (43) og Albaníu (43). Útlendingastofnun veitti 263 hælisumsækjendum vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum á sama tímabili, flestum frá fyrstu þremur áðurnefndu ríkjum. Er þetta meðal þess sem fram kemur í nýlegri tölfræði Útlendingastofnunar sem birt er á heimasíðu stofnunarinnar.
Þeir sem sóttu um hæli á Íslandi fyrstu tíu mánuði þessa árs eru af 72 þjóðernum. Langflestir þeirra eru fullorðnir karlmenn (349), þar á eftir koma konur (159), drengir (84) og stúlkur (95). Fylgdarlausir drengir eru níu talsins, en engin fylgdarlaus stúlka kom til landsins á þessu tímabili í þeim tilgangi að sækja um hæli.
Fylgdarlausu drengirnir koma frá Sómalíu (5), Albaníu (2), Jemen (1) og Afganistan (1).
Í október síðastliðnum komu alls 73 hælisleitendur til landsins. Voru þeir 99 í september, 78 í ágúst, 73 í júlí, 49 í júní, 57 í maí, 44 í apríl, 77 í mars, 74 í febrúar og 72 í janúar.
Alls var 165 hælisleitendum vísað úr landi sama tímabil á grundvelli Dyflinnarreglugerðar. Flestum var vísað í burtu í september (31), mars (26), júní (20) og maí (19). Fæstum var vísað úr landi í apríl (7).
Meira um málið í Morgunblaðinu.