Um helmingur þeirra 2.900 erlendu ríkisborgara sem voru án vinnu á Íslandi í október er með grunnskólapróf. Þá voru um 900 með framhaldsmenntun, eða hliðstætt nám, og um 600 með háskólapróf.
Þessar upplýsingar fengust frá Vinnumálastofnun en tilefnið er fjölgun á atvinnuleysisskrá.
Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, segir aðspurður að niðursveiflan í ferðaþjónustu muni hafa áhrif á atvinnumöguleika þessa hóps. Hátt hlutfall fólks í ferðaþjónustu sé enda ófaglært og stór hlutinn erlent vinnuafl.
„Það fór fyrst að bera verulega á uppsögnum í ferðaþjónustu í október. Þ.e. fyrir utan þær sem tengdust beint falli flugfélagsins WOW air. Við gerum ekki ráð fyrir fjölgun starfa í greininni á næsta ári, nema kannski síðsumars. Byggingariðnaðurinn fór á flug sl. vor en virðist nú vera að dragast saman. Ef það verða margar uppsagnir í haust má búast við mörgum nýráðningum í vor, enda gert ráð fyrir nokkrum hagvexti og fjölgun starfa á næsta ári,“ segir Karl.
Um 7.700 manns voru skráðir án vinnu í október og voru þar af 2.920 erlendir ríkisborgarar sem samsvaraði 38% atvinnulausra. Alls voru um 3.356 með grunnskólapróf – íslenskir og erlendir ríkisborgarar – og voru um 44% þeirra erlendir ríkisborgarar.
Alls er hlutfall fólks með grunnskólapróf á atvinnuleysisskrá 44%.
Meira um málið í Morgunblaðinu í dag.