Í dag fór fram fyrsta Barnaþingið í Hörpu þar sem krakkar fengu að segja skoðanir sínar á þeim málum sem þeim finnst mikilvæg og þau voru ánægð með tækifærið. „Þá kannski heyrir Guðni forseti í manni,“ segir Atli Dagur Kristjánsson einn þátttakenda.
Í myndskeiðinu er rætt við þátttakendur og fylgst með umræðum á einu borðinu þar sem Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, tók þátt í umræðum með krökkunum.
Fyrirkomulagið á þinginu var svipað því sem var á Þjóðfundinum. Um 150 börnum var skipt í hópa þar sem einn stjórnandi sá um að halda utan um samræður krakkanna. Þar fengu þau tækifæri til koma sínum skoðunum á framfæri og komast að sameiginlegri niðurstöðu um hvað skipti máli og hugmyndir að lausnum.
Niðurstöðurnar fengu þau að kynna fyrir ráðherrum, alþingisfólki og fólki frá stofnunum, sveitarfélögum og úr atvinnulífinu. Í kjölfarið mun skrifstofa Umboðsmanns barna vinna úr niðurstöðunum en mikilvægt er að hægt verði að sjá árangur af störfum þingsins segir Salvör Nordal Umboðsmaður barna áður en næsta þing verður haldið eftir tvö ár.
Markmiðið er meðal annars að virkja börn til þátttöku í málefnum sem snerta þau og þjálfa fullorðið fólk til samræðu við börn.