Pétur kemur inn á Kaffi Læk á tveimur undarlegum hækjum. Hann er með spelkur undir gallabuxunum og það heyrast í þeim brak og brestir þegar hann sveiflar til lífvana fótleggjunum. Hann tyllir hækjunum upp við búðarborðið, pantar sér kaffi og segir blaðamanni að spelkurnar séu aðeins bilaðar; það eigi ekki að heyrast svona mikil hljóð. Hann lætur það ekki á sig fá. Það er raunar með ólíkindum að Pétur geti notað hækjur yfirhöfuð en hann er lamaður fyrir neðan mitti og ætti að sitja í hjólastól allan daginn.
Eftir að hafa farið í gegnum marga djúpa dali í tæpan áratug er Pétur farinn að sjá til himins. Jafnvel svo langt að hann er farinn að horfa alla leið út í geim. En leiðin hans liggur ekki bara djúpt út í geim, heldur líka djúpt inn á við.
Sagt var frá því fréttum snemma árs 2011 að ungur maður, Pétur Kristján Guðmundsson, hefði runnið niður fjall í Austurríki, fallið fram af kletti, og lamast. Pétur var þá ungur og hraustur, 24 ára gamall maður með stóra drauma um að verða kvikmyndagerðarmaður. „Þetta var á nýársnótt klukkan tvö. Það var dagurinn sem heimurinn minn hrundi; heimsendir. En ég er enn hér, tæpum níu árum seinna en þetta hefur verið gríðarlega erfitt ferðalag. En mér finnst eins og ég sé núna fyrst að klífa fjall þjáningarinnar svo mikið að ég sé byrjaður að sjá yfir toppinn. Eftir næstum áratugar baráttu og þjáningar,“ segir Pétur.
„Ég og vinur minn, Kristinn Gunnar Atlason, tókum strætó upp fjallið og þaðan var hægt að taka kláf lengra upp. Við horfðum á flugeldana og það var svaka stemning. Um tvöleytið kom svo sami strætó að sækja okkur en nú var hann yfirfullur; gjörsamlega pakkaður. Og allir blindfullir. Ég sagði við Kidda vin minn að ég nennti ekki í þennan strætó; við ættum frekar að labba niður fjallið en hann vildi fara í strætóinn. Ég vildi óska þess að ég hefði hlustað á hann,“ segir Pétur og segir þá félaga hafa haldið af stað niður fjallið.
„Við gengum af stað yfir tún og girðingar og komum svo að skógi. Ég var aðeins á undan og sá ekki Kidda en heyrði í honum. Ég kom að barði sem var svona hálfur metri á hæð og ég sá ekki alveg nóg hvað tók svo við. Ég ákvað að hoppa yfir barðið, grípa í tré og skoða svo aðstæður. Mér fannst þetta ekki vera neitt. Svo hoppaði ég yfir barðið og það var síðasta skrefið í lífinu sem ég tek með líkama sem virkar,“ segir hann.
„Ég lá á ísilögðum vegi í fjóra klukkutíma. Ég var í gallabuxum og dúnúlpu. Ég fraus næstum til dauða. Líkamshitinn var kominn niður í 31 gráðu. Kiddi reyndi að halda á mér hita og við lágum þétt saman um tíma. Sjúkrabíllinn fór með mig beint á sjúkrahús þar sem ég var skoðaður. Þá sáu læknar rústaða mænu. Á tölvusneiðmyndinni sést inn í endana á mænunni. Það er hræðileg mynd!“ segir Pétur og segist svo hafa legið undir hnífnum í átta klukkutíma. Honum var haldið sofandi næstu þrjá sólarhringa.
„Það næsta sem ég man var að ég opnaði augun og var þá inni í kremlituðu herbergi. Svo labbaði fjölskyldan inn og ég hugsaði, „jæja, er þetta svona alvarlegt?“
Fjölskyldan grét og spjallaði við Pétur en fór svo út úr herberginu þegar læknirinn gekk inn.
„Hann kynnti sig sem skurðlækninn sem hafði skorið mig, horfði í augun á mér og sagði: „Þú munt aldrei ganga framar.“ Hann sagði mér það bara beint út, að það væri ekki séns. Ég spurði hann hvort það væri 100% víst. Hann svaraði: „Já, 99,9%, nema það gerist eitthvert kraftaverk.“ Ég hugsaði strax: „Nei, nei, ég tek þessu ekki.“ Heilinn getur ekki tekið við þessum veruleika og stillir bara á afneitun.“
„Ég var í afneitun í tvö ár og trúði því raunverulega að ég myndi geta gengið á ný en vonin fór dvínandi. Ég sá fyrir mér að labba bara eins og Forrest Gump; labba þar til spelkurnar myndu hrynja af mér. Ég var auðvitað haldinn ranghugmyndum.“
„Árið 2016 fékk ég nýjar hækjur sem eru bogadregnar og eru algjör snilld. Þær búa til stökkkraft. Þannig að öll orkan sem ég set í skrefið kemur til baka. Þetta líkist gervifótunum sem Össur framleiðir; bara sett undir hækjur,“ segir Pétur og segist vera enn sá eini sem notar svona hækjur en þær eru ekki komnar á markað. Það þarf þolinmæði, kraft og seiglu til að ná tökum á hækjunum og segist Pétur vera búinn að detta þúsund sinnum.
„Ég er oft í stólnum en ég vil geta notað hækjur líka. Hækjur eru betri þegar ég fer út í bæ að hitta fólk. Borgin er hönnuð fyrir standandi einstaklinga. Hvert einasta þrep er hindrun. Á hækjum flýg ég yfir kantana. Ég get gengið upp á fjórðu hæð ef ég þarf.“
Pétur hefur þurft að finna leiðir til þess að afbera stöðuga verki. „Það fylgja þessu krónískir taugaverkir. Ég er eitt versta tilvik sem læknarnir á Grensási höfðu séð. Ég var stundum öskrandi af kvölum og oft í marga klukkutíma þar til einhver hringdi á sjúkrabíl og ég var sprautaður niður. Þegar þetta gerðist var eins og ég væri haldinn illum öndum. Þetta gerðist í upphafi um einu sinni í mánuði. Svo var lengra á milli og skánaði aðeins en ég fæ slæma taugaverki á hverjum degi,“ segir hann.
„Það sem hefur bjargað mér er að ég hef náð að aftengja þjáningu frá sársauka. Ef þú setur hönd á heita hellu þá finnur þú sársauka og hugsar, þetta er vont. Þú þjáist. Það er hægt að breyta þessari hugsun. Það er hægt að upplifa sársauka án þess að þjást. Ef maður nær að aftengja og horfir inn í sársaukann, að sitja andspænis drekanum sem spúir eldi, þá nær maður að minnka þjáninguna,“ segir hann.
Pétur hefur lært mikið á þessum tæpa áratug frá slysinu. Nú vill hann hjálpa öðrum sem þjást.
„Ég er kominn á þann stað að mér finnst loksins eins og ég geti kennt fólki að komast yfir sína þjáningu. Það hjálpar mér á minni eigin braut, að hjálpa öðrum. Þetta snýst um að öðlast innri frið og opna nýja heima fyrir fólki,“ segir hann.
Ertu kominn á góðan stað í lífinu í dag?
„Mér finnst það. Ég er búinn að ná innri sátt af því að ég get aftengt sársaukann þjáningunni. Ég hugsaði áður að ég hefði hlotið verstu örlög í heimi. En nú get ég séð þetta sem gríðarlega erfiðan og harðan lærdóm. Ég missti ekki bara getuna til að ganga, ég missti í raun hálfan líkama. Ég þarf að lifa með því að vera í líflausum líkama. Ég er ekki að fara að breyta því en hugurinn getur komist yfir hvað sem er. Yfirgengileg þjáning er oft leiðin að endanlegri uppljómun.“
Viðtalið í heild er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.