Sérfræðingur í starfsmannamálum stóru bankanna telur að innan fárra ára verði um 400 færri starfsmenn hjá bönkunum en starfa þar nú. Bankarnir hafa sagt upp vel á annað hundrað manns í haust. Eftir þær uppsagnir starfa um 2.500 manns hjá bönkunum, eða næstum tvöfalt færri starfsmenn en þensluárið 2007.
Þá segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, útlit fyrir frekari fækkun verslunarstarfa. Fjöldi þeirra hafi náð hámarki hér.
Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, telur skattlagningu á bankana mögulega hafa ýtt undir fækkun starfsfólks.
Spurð hvort boðaðar skattalækkanir muni duga til að örva hagkerfið segir hún allar forsendur til að þær auki kaupmátt lægstu tekjuhópa mun meira en annarra. Hins vegar verði skattbyrðin áfram ein sú mesta meðal OECD-ríkja.
„Á sama tíma er það áhyggjuefni ef sveitarfélögin eru ekki að standa við sinn hluta lífskjarasamningsins þegar kemur að fasteignasköttum, eins og við höfum fengið upplýsingar um á síðustu dögum,“ segir Ásta.
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs hjá Samtökum atvinnulífsins (SA), segir boðaðar skattalækkanir óverulegar á næsta ári. SA hafi viljað meiri lækkanir.
„Við áætlum að um 115 milljarða árlega, eða um 15% af heildarskatttekjum ríkisins, megi rekja til nýrra skatta eða skattahækkana á síðustu 10 árum,“ segir Ásdís í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.