Fær greidd laun í 20 mánuði vegna starfsloka

Kirkjuráð hefur samtþykkt að greiða Oddi Einarssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra kirkjuráðs …
Kirkjuráð hefur samtþykkt að greiða Oddi Einarssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra kirkjuráðs laun næstu 20 mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Oddur Einarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri kirkjuráðs sem sagt var upp störfum í síðasta mánuði, fær greidd laun í 20 mánuði samkvæmt starfslokasamkomulagi sem hann og kirkjuráð gerðu með sér. Á þeim tíma fær hann greiddar um 20 milljónir króna. Rúv sagði fyrst frá málinu fyrr í dag, en mbl.is hefur starfslokasamninginn undir höndum.

Starfslokasamningurinn nær frá nóvember í ár út júní 2021 og mun kirkjuráð greiða Oddi föst mánaðarlaun auk yfirvinnu og orlofs í þrjá mánuði, samtals 1,16 milljónir á mánuði. Næstu 17 mánuði fær hann svo greidd grunnlaun, eða 948 þúsund á mánuði. Í lok tímabilsins er svo orlof gert upp við Odd.

Morgunblaðið greindi frá því í lok október að kirkjuráð hefði ákveðið einróma á fundi sínum 2. október að segja ráðningasamningi Odds upp og semja ætti um starfslok hans. Kom jafnframt fram í fundargerð að bisk­up hefði fram­sent til ráðsins bréf fjár­mála­stjóra bisk­ups­stofu þar sem meðal ann­ars hefði verið kvartað yfir fram­komu Odds í garð verk­efna­stjóra fjár­mála bisk­ups­stofu.

Pétur G. Markan, upplýsingafulltrúi biskupsstofu, segir í samtali við mbl.is að í tilviki Odds sé um opinberan starfsmann að ræða. Því sé ekki hægt að segja honum upp, heldur þurfi að leita starfsloka með samningi.

Spurður út í tímalengd launagreiðsla í 20 mánuði segir Pétur að kirkjuráð þurfi í hverju og einu máli að meta stöðuna. „Þó þetta sé dýrt að þá sé þetta þess virði,“ segir Pétur og bætir við að aðstæður núna hafi kallað á samning. „Það átta sig allir á því að þetta er dýr samningur, en það verður að meta samninginn út frá þessum erfiðu aðstæðum sem kirkjuráð er í,“ segir Pétur.

Í samkomulaginu kemur einnig fram að greiðslur til Odds muni ekki skerðast þó hann fái greidd laun frá öðum á tímabilinu. Þá er honum gert að skila fartölvu sem hann hafði til umráða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka