„Fólk er eðli­lega reitt“

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, fór yfir víðan völl á …
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, fór yfir víðan völl á haustfundi miðstjórnar flokksins sem haldinn er á Akureyri í dag. Ljósmynd/Aðsend

„Nú líður að því að sú ríkisstjórn sem við sitjum í eigi tveggja ára afmæli. Þetta hefur verið ríkisstjórn sóknar og uppbyggingar. Þáttur Framsóknar í stjórninni er drjúgur og ég er stoltur af þeim árangri sem hún hefur náð á þessum tveimur árum,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, á haustfundi miðstjórnar flokksins. 

Fundurinn fór fram í dag í Hofi á Akureyri og var mæting góð. Á meðal þess sem Sigurður fjallaði um í ræðu sinni var Samherjamálið svokallaða og íslenskur sjávarútvegur, en klukkan 14 hófst mótmælafundur á Austurvelli þar sem þess er krafist að Kristján Þór Júlísson sjávarútvegsráðherra segi af sér. Þess er einnig krafist að arður af nýtingu sameiginlegra auðlinda landsmanna, meðal annars fiskimiðum, renni í sjóði almennings. 

Umbætur í sjávarútvegi nauðsynlegar

„Undanfarnar vikur hefur samfélagið verið skekið af því sem í almennu tali er nefnt Samherjamálið. Fólk er eðlilega reitt. Reitt yfir þessu framferði stórfyrirtækisins sem birtist í umfjölluninni en ekki hvað síst reitt yfir þeim aðstöðumun sem stórfyrirtæki og almenningur búa við. Framsóknarflokkurinn kom að því á sínum tíma að setja á kvótakerfi í fiskveiðum. Það var stórkostlegt hagsmunamál fyrir þjóðina að fiskveiðar við Ísland væru sjálfbærar og gengju ekki á auðlind þjóðarinnar, fiskimiðin,“ sagði Sigurður í ræðu sinni. 

Sigurður Ingi Jóhannsson sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður sagði að á þeim tíma sem kvótakerfinu var komið á fót hafi engum dottið í hug að staðan í dag yrði sú að fá fyrirtæki ættu jafn stóran hluta kvótans og raun ber vitni. 

„Og ekki nóg með það heldur farin að banka í hámarksþakið. Það er auðvitað gleðilegt og jákvætt að íslenskur sjávarútvegur sé með þeim fremstu, ef ekki sá fremsti, í heiminum. Það breytir því ekki að umbóta er þörf,“ sagði Sigurður. 

Segir nýtt auðlindaákvæði í stjórnarskrá mikilvægt

Sigurður telur það gríðarlega mikilvægt að nýtt auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar sem var í samráðsgátt stjórnvalda fyrr á árinu, verði sett í stjórnarskrána. 

Ákvæðið kveður á um að auðlindir íslenskrar náttúru tilheyri íslensku þjóðinni og að nýting auðlinda skuli grundvallast á sjálfbærri þróun. 

„Þótt slíkt ákvæði sé mikilvægt þá dugar það ekki eitt og sér. Það verður að ríkja sátt um nýtingu auðlinda okkar, hvort heldur er orka, land eða fiskimið,“ sagði Sigurður og bætti við að frumvarp sem hann vann að sem sjávarútvegsráðherra á árunum 2014 og 2015 hefði falið í sér grunn að sátt um sjávarútveginn. 

„Frumvarpið komst ekki inn til þingsins vegna mikillar andstöðu samstarfsflokksins. Ég tel að grunnur að sátt um sjávarútveginn felist í þessu frumvarpi og því að lækka hámark kvótaþaks, bæði í heildaraflaheimildum og í einstökum tegundum, og vinna þannig að aukinni dreifingu kvóta. Frumvarpið hefði haft mikil áhrif á samfélagið og stuðlað að meiri sátt, meira jafnvægi í samfélaginu,“ sagði Sigurður. 

„Kvótakerfið var ekki búið til svo nokkrir einstaklingar gætu orðið ofurríkir. Það var ekki búið til svo þeir fjármunir sem urðu til við aukna verðmætasköpun færu á flakk milli reikninga á aflandseyjum. Það var búið til svo Íslendingar allir gætu notið hagsbóta af öflugum íslenskum sjávarútvegi. Umbætur í sjávarútvegi eru nauðsynlegar og tímabærar.“

Fjölmennt var í Hofi á haustfundi miðstjórnar Framsóknarflokksins í dag.
Fjölmennt var í Hofi á haustfundi miðstjórnar Framsóknarflokksins í dag. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert