„Fólk er eðli­lega reitt“

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, fór yfir víðan völl á …
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, fór yfir víðan völl á haustfundi miðstjórnar flokksins sem haldinn er á Akureyri í dag. Ljósmynd/Aðsend

„Nú líður að því að sú rík­is­stjórn sem við sitj­um í eigi tveggja ára af­mæli. Þetta hef­ur verið rík­is­stjórn sókn­ar og upp­bygg­ing­ar. Þátt­ur Fram­sókn­ar í stjórn­inni er drjúg­ur og ég er stolt­ur af þeim ár­angri sem hún hef­ur náð á þess­um tveim­ur árum,“ sagði Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, á haust­fundi miðstjórn­ar flokks­ins. 

Fund­ur­inn fór fram í dag í Hofi á Ak­ur­eyri og var mæt­ing góð. Á meðal þess sem Sig­urður fjallaði um í ræðu sinni var Sam­herja­málið svo­kallaða og ís­lensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur, en klukk­an 14 hófst mót­mæla­fund­ur á Aust­ur­velli þar sem þess er kraf­ist að Kristján Þór Júlí­s­son sjáv­ar­út­vegs­ráðherra segi af sér. Þess er einnig kraf­ist að arður af nýt­ingu sam­eig­in­legra auðlinda lands­manna, meðal ann­ars fiski­miðum, renni í sjóði al­menn­ings. 

Um­bæt­ur í sjáv­ar­út­vegi nauðsyn­leg­ar

„Und­an­farn­ar vik­ur hef­ur sam­fé­lagið verið skekið af því sem í al­mennu tali er nefnt Sam­herja­málið. Fólk er eðli­lega reitt. Reitt yfir þessu fram­ferði stór­fyr­ir­tæk­is­ins sem birt­ist í um­fjöll­un­inni en ekki hvað síst reitt yfir þeim aðstöðumun sem stór­fyr­ir­tæki og al­menn­ing­ur búa við. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn kom að því á sín­um tíma að setja á kvóta­kerfi í fisk­veiðum. Það var stór­kost­legt hags­muna­mál fyr­ir þjóðina að fisk­veiðar við Ísland væru sjálf­bær­ar og gengju ekki á auðlind þjóðar­inn­ar, fiski­miðin,“ sagði Sig­urður í ræðu sinni. 

Sigurður Ingi Jóhannsson sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra.
Sig­urður Ingi Jó­hanns­son sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Sig­urður sagði að á þeim tíma sem kvóta­kerf­inu var komið á fót hafi eng­um dottið í hug að staðan í dag yrði sú að fá fyr­ir­tæki ættu jafn stór­an hluta kvót­ans og raun ber vitni. 

„Og ekki nóg með það held­ur far­in að banka í há­marksþakið. Það er auðvitað gleðilegt og já­kvætt að ís­lensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur sé með þeim fremstu, ef ekki sá fremsti, í heim­in­um. Það breyt­ir því ekki að um­bóta er þörf,“ sagði Sig­urður. 

Seg­ir nýtt auðlinda­ákvæði í stjórn­ar­skrá mik­il­vægt

Sig­urður tel­ur það gríðarlega mik­il­vægt að nýtt auðlinda­ákvæði stjórn­ar­skrár­inn­ar sem var í sam­ráðsgátt stjórn­valda fyrr á ár­inu, verði sett í stjórn­ar­skrána. 

Ákvæðið kveður á um að auðlind­ir ís­lenskr­ar nátt­úru til­heyri ís­lensku þjóðinni og að nýt­ing auðlinda skuli grund­vall­ast á sjálf­bærri þróun. 

„Þótt slíkt ákvæði sé mik­il­vægt þá dug­ar það ekki eitt og sér. Það verður að ríkja sátt um nýt­ingu auðlinda okk­ar, hvort held­ur er orka, land eða fiski­mið,“ sagði Sig­urður og bætti við að frum­varp sem hann vann að sem sjáv­ar­út­vegs­ráðherra á ár­un­um 2014 og 2015 hefði falið í sér grunn að sátt um sjáv­ar­út­veg­inn. 

„Frum­varpið komst ekki inn til þings­ins vegna mik­ill­ar and­stöðu sam­starfs­flokks­ins. Ég tel að grunn­ur að sátt um sjáv­ar­út­veg­inn fel­ist í þessu frum­varpi og því að lækka há­mark kvótaþaks, bæði í heild­arafla­heim­ild­um og í ein­stök­um teg­und­um, og vinna þannig að auk­inni dreif­ingu kvóta. Frum­varpið hefði haft mik­il áhrif á sam­fé­lagið og stuðlað að meiri sátt, meira jafn­vægi í sam­fé­lag­inu,“ sagði Sig­urður. 

„Kvóta­kerfið var ekki búið til svo nokkr­ir ein­stak­ling­ar gætu orðið of­ur­rík­ir. Það var ekki búið til svo þeir fjár­mun­ir sem urðu til við aukna verðmæta­sköp­un færu á flakk milli reikn­inga á af­l­ands­eyj­um. Það var búið til svo Íslend­ing­ar all­ir gætu notið hags­bóta af öfl­ug­um ís­lensk­um sjáv­ar­út­vegi. Um­bæt­ur í sjáv­ar­út­vegi eru nauðsyn­leg­ar og tíma­bær­ar.“

Fjölmennt var í Hofi á haustfundi miðstjórnar Framsóknarflokksins í dag.
Fjöl­mennt var í Hofi á haust­fundi miðstjórn­ar Fram­sókn­ar­flokks­ins í dag. Ljós­mynd/​Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert