Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í skipulags- og samgönguráði hafa lagt fram tillögu þess efnis að Reykjavíkurborg reisi minnisvarða um Auði Auðuns í borgarlandinu.
Listasafni Reykjavíkur verði falið að velja listamann til að hanna minnisvarðann og umhverfis- og skipulagssviði verði falið að finna honum stað í borgarlandinu. Tillögunni var vísað til menningar- og ferðamálasviðs og umhverfis- og skipulagssviðs til meðferðar, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Í greinargerð með tillögunni kemur fram að víða í borgarlandinu megi finna höggmyndir eða minnisvarða um þekkta karlmenn úr sögunni. Þeirra kvenna sem lögðu mark sitt á söguna sé síður minnst með þessum hætti. Listasafn Reykjavíkur hafi tileinkað árið 2019 list í almannarými og því sé ekki úr vegi að leiðrétta þennan halla og minnast Auðar.