Segir ummæli Jóns Steinars dæma sig sjálf

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Benedikts Bogasonar hæstaréttardómara, sem höfðaði meiðyrðamál …
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Benedikts Bogasonar hæstaréttardómara, sem höfðaði meiðyrðamál gegn Jóni Steinar Gunnlaugssyni, lögmanni og fyrrverandi dómara við Hæstarétt. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ummæli Jóns Steinars þess efnis að dómarar Landsréttar hafa greinilega viljað gera umbjóðanda mínum til geðs og að þeir hafi verið vilhallir honum dæma sig sjálf í ljósi niðurstöðu málsins,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, lögmaður Benedikts Bogasonar hæstaréttardómara.

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi dómari við Hæstarétt, var í gær sýknaður í Landsrétti af meiðyrðamáli Benedikts. Vilhjálmur segir í samtali við mbl.is að sótt verður um áfrýjunarleyfi til að áfrýja málinu til Hæstaréttar. 

Í mál­inu fór Bene­dikt fram á að um­mæli í bók Jóns Stein­ars Með lognið í fangið - Um af­glöp Hæsta­rétt­ar eft­ir hrun yrðu dæmd dauð og ómerk. Í bók­inni gagn­rýn­ir Jón Stein­ar m.a. dóm Hæsta­rétt­ar sem Bene­dikt og fleiri komu að. 

Benedikt Bogason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Benedikt Bogason og Jón Steinar Gunnlaugsson. Samsett mynd

Vilhjálmur segir það kunnuglegt stef þegar Jón Steinar tapar málum eða niðurstaðan er óhagstæð vinum hans eða Sjálfstæðisflokknum, að hann segi dómara hlutdræga. „Ég man hins vegar ekki eftir því að Jón Steinar hafi áður gengið svo langt í málum sem hann vinnur að segja að dómararnir séu hlutdrægir.“ 

Vilhjálmur segir ekkert við málsmeðferð Landsréttar hafa gefið Jóni Steinari tilefni til að vega með þessum hætti að dómurum málsins. 

Áfrýjunarleyfið gæti reynst torsótt þar sem það flækir óneitanlega málið að bæði Jón Steinar og Benedikt hafa tengsl við Hæstarétt. Leitað verður til hæfnisnefndar um dómarastörf sem fær það hlutverk að skipa hæfan dómara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert