Pétur Kristján Guðmundsson segist hafa dottið þúsund sinnum en lætur það ekki aftra sér frá því að nota hækjur og spelkur. Pétur, sem er lamaður fyrir neðan mitti, vinnur með Össuri við þróun sérstakra hækja sem enn eru ekki komnar á markað.
„Ég er oft í stólnum en ég vil geta notað hækjur líka. Borgin er hönnuð fyrir standandi einstaklinga. Hvert einasta þrep er hindrun,“ segir Pétur í viðtali í Sunnudagsblaði helgarinnar.
Pétur hefur fundið sína hillu í djúpgeimsljósmyndun. Það varð honum til happs að Microsoft stal af honum norðurljósamynd. Fyrir sektina gat hann keypt betri græjur. „Það sem hjálpaði mér út úr svartnættinu var að kynnast alheiminum,“ segir Pétur.