Þremenningarnir sem ACC, spillingarlögreglan í Namibíu, leitar enn að eftir að Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra landsins, var handtekinn í dag, eru hákarlarnir þrír svokölluðu, en þeir mynduðu ásamt Esau kjarnann í hópi þeirra valdamanna sem talið er að hafi tekið við mútugreiðslum frá Samherja fyrir ódýrt aðgengi að hrossamakríl. Þetta sagði Paulus Noa, framkvæmdastjóri ACC, í kvöldfréttum RÚV.
Hákarlarnir þrír eru þeir James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformaður ríkisútgerðarfélagsins Fishcor, Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, og Tamson Hatuikulipi, tengdasonur Esau og náfrændi James.
Þá kom einnig fram í máli Noa á RÚV að samkvæmt vísbendingum lögreglunnar séu tveir þeirra sem leitað er að enn í landinu. Í síðustu viku greindi namibíski miðillinn The Namibian frá því að þeir Tamson Hatuikulipi og Sacky Shanghala hafi nýverið farið til Höfðaborgar í Suður-Afríku og ekki snúið aftur til Namibíu. Noa sagði við RÚV að handtaka mannanna væri óumflýjanleg. Eignir þeirra voru frystar í síðustu viku vegna rannsóknarinnar.
Vonaðist Noa einnig eftir góðri samvinnu við íslensk stjórnvöld við rannsóknina og að ná tali af eigendum Samherja, eða starfsmönnum fyrirtækisins sem gætu aðstoðað við rannsóknina.