Helgi Seljan, dagskrárgerðamaður á RÚV, segir að mikil ólga sé í Namibíu í kjölfar Samherjamálsins svokallaða og að almenningi í landinu sárni uppkoma málsins.
Helgi og Stefán Drengsson, sem fjölluðu um viðskipti Samherja í Namibíu fyrr í mánuðinum, komu heim til Íslands í gærkvöldi eftir heimsókn til Namibíu. Voru þeir að fylgjast með þróun mála þar í landi í kjölfar umfjöllunar Kveiks.
Helgi var gestur Egils Helgasonar í Silfrinu í dag.
„Við vorum að reyna að átta okkur á því hver staðan er þar og afla okkur upplýsinga um þessa rannsókn sem er í gangi þar á mútumálum. Hitta menn og annan, það var mjög áhugavert,“ sagði Helgi, en þeir Stefán fóru til Namibíu síðastliðinn mánudag.
Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, og Richardo Gustavo, sem kemur fyrir í skjölum Wikileaks í tengslum við meintar mútur Samherja til ráðamanna í Namibíu, hafa báðir verið handteknir í kjölfar umfjöllunar Kveiks.
„Eftir því sem ég kemst næst eru þeir núna eftirlýstir, eða svo gott sem, hinir þrír, þessir svokölluðu hákarlar. Þar fyrir utan virðist það vera möguleiki að forsetinn sem hefur notið gríðarlegrar lýðhylli, stendur bara frekar tæpt í kosningum sem eru núna eftir helgina. Það þótti óhugsandi fyrir stuttu síðan,“ sagði Helgi.
Almennar kosningar fara fram í Namibíu á miðvikudag, en Hage Geingob, núverandi forseti landsins, sigraði síðustu kosningar með tæplega 87% atkvæða.
„Það er ótrúlega mikil ólga í landinu yfir þessu öllu saman. Þarna er fólk að upplifa hungur og sárafáttækt. Sársaukinn sem fólk upplifir að fá þetta í andlitið núna er þeim mun meiri. Þarna er auðvitað ekki gott ástand fyrir.“
Helgi segir að löggjöf í Namibíu sé afar framsækin þegar kemur að spillingu og að því sé ekki hægt að segja að spilling eða mútur séu inngrónar í namibíska menningu.
„Í þessu tilfelli sjáum við alveg og höfum frásagnir af því, að það er íslenskt fyrirtæki sem kemur þarna inn og er harðákveðið frá upphafi að fara ákveðna leið, þeir „lenda“ ekkert í því að borga mútur. Það er tvennt sem er ákveðið í upphafi, að koma inn og nálgast stjórnmálamenn og vera tilbúnir til þess að greiða mútur til að komast yfir kvóta. Síðan er hitt sem er það að reyna að koma arðinum af þessum auðlindum úr landi með sem minnstum kostnaði.“
Þá sé afar umfangsmikil rannsókn í gangi vegna málsins í Namibíu og að ekki sé hægt að útiloka það að þeir Íslendingar sem gerst hafa sekir um lögbrot í málinu verði sóttir til saka.
„Rannsóknin sem er í gangi núna er sú umfangsmesta sem átt hefur sér stað á spillingarmáli þar. Þetta er mjög umsvifamikil rannsókn.“
Næstkomandi þriðjudag verður sýndur nýr þáttur af Kveik þar sem nánar verður fjallað um ferð Helga og Stefáns til Namibíu og eftirmála Samherjamálsins þar í landi.