Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú atvik sem varð í miðbæ Reykjavíkur í nótt þegar þrír menn réðust á dyraverði á skemmtistað. Er þremenninganna nú leitað.
Atvik voru með þeim hættu að dyraverðirnir voru að vísa mönnunum þremur út af skemmtistaðnum, en þeir höfðu verið með nokkrar óspektir innandyra. Mennirnir veittust þá að dyravörðunum, slógu einn niður og spörkuðu í höfuð hans, réðust síðan á annan dyravörð með glerglasi sem brotnaði á höfði mannsins og slógu síðan þriðja dyravörðinn niður.
Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi segir að þegar lögreglu bar að garði hafi mennirnir verið farnir. Sá dyravörður sem fékk spark í höfuðið var fluttur með forgangi á bráðadeild til aðhlynningar, en hinir tveir slösuðust einnig.
Guðmundur segist ekki geta sagt til um líðan mannanna sem stendur, en unnið sé að rannsókn málsins. Samkvæmt Guðmundi munu tveir af dyravörðunum þremur fara í skýrslutöku í dag. Ljóst sé að um nokkuð alvarlega líkamsárás sé að ræða.
„Það er sparkað í höfuð, fólkið liggjandi, glerglas brotið á höfði á manni. Þetta er alvarlegt,“ segir Guðmundur.
Ekki hefur tekist að bera kennsl á árásarmennina þrjá enn sem komið er.
„Við erum að afla myndupptaka af þessu og sendum myndir af þeim á alla lögreglumenn til þess að byrja með,“ segir Guðmundur.
Guðmundur segir til greina koma að lýsa eftir mönnunum í næstu viku, takist lögreglu ekki að bera kennsl á þá. Þó séu vitni að atvikinu sem vonandi geta veitt gagnlegar upplýsingar fyrir rannsóknina, þá sérstaklega einstaklingur sem náði atburðinum á mynd og hefur gefið sig fram við lögreglu.