Rútufyrirtækið Gray Line hefur höfðað tvö dómsmál á hendur Isavia. Annars vegar vegna samnings sem Gray Line telur Isavia hafa brotið og hins vegar til viðurkenningar á skaðabótaskyldu vegna ákvörðunar Isavia um að hafna tilboði Gray Line í útboði um aðgang að hópbifreiðastöðu við flugstöðina í Keflavík.
Þórir Garðarsson stjórnarformaður segir í samtali við Morgunblaðið að Isavia hafi samþykkt tilboð Hópbíla þrátt fyrir að Hópbílar hafi ekki uppfyllt kröfur sem gerðar voru í útboðinu. Þá hafi Isavia tekið auglýsingu úr umferð sem Gray Line og Isavia höfðu gert skriflegan samning um.
Isavia hafnar öllum ásökunum Gray Line að sögn upplýsingafulltrúa Isavia og bíður dóms í málunum, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.