„Blaðamenn senda mjög skýr skilaboð“

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, eftir að talning atkvæða um …
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, eftir að talning atkvæða um kjarasamning var ljós. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er í annað sinn sem blaðamenn senda mjög skýr skilaboð til sinna viðsemjenda og atvinnurekenda um að þeir vilja fá hóflegar breytingar á sínum kjörum sem henta þessari starfsstétt. Ég vona svo sannarlega að á okkur verði hlustað og að við fáum sanngjarna umræðu við samningaborðið,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, eftir atkvæðagreiðslu félagsmanna BÍ um kjarasamning sem þeir felldu.  

Félagsmenn höfnuðu kjarasamningnum sem var lagður fyrir þá í dag. Nei sögðu 105 eða 71,4% og já sögðu 36 eða 24,5%. Auðir seðlar voru 6 eða 4,1%. Á kjör­skrá voru 380 alls greiddu 147 at­kvæði eða 38,7% fé­lags­manna.  

Næsta mál á dagskrá er sáttafundur hjá Ríkissáttasemjara. Sá fundur verður annað hvort á morgun eða á fimmtudag. Ef samningar nást ekki fyrir þann tíma verða verkfallsaðgerðir á föstudaginn kemur þegar blaðamenn vefmiðla, ljósmyndarar og myndatökumenn leggja niður störf í 12 klukkustundir frá 10 til 22.  

Engar breytingar verða gerðar á samninganefnd Blaðamannfélagsins. „Samninganefndin hefur staðið sig frábærlega og ég ber fyllsta traust til hennar. Það er ekki okkur að kenna að ekki hefur verið komið til móts við okkar sanngjörnu kröfur,“ segir Hjálmar og ítrekar lýðræðislegt umboð sem nefndin hefur frá félagsmönnum.  

Hjálmar er ánægður með kjörsóknina sem var 38,7%. Kjörskráin var stærri í þessari atkvæðagreiðslu um kjarasamninginn en var þegar kosið var um verkfallsaðgerðir á miðlunum. Um 95% af þeim sem eru í BÍ eru starfandi á fjölmiðlum. 

Tekið skal fram að flest­ir blaðamenn á rit­stjórn mbl.is og Morg­un­blaðsins eru fé­lag­ar í Blaðamanna­fé­lagi Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert