„Við tökum ábendingum frá landlækni alvarlega. Við munum vinna úr þeim eftir bestu getu,“ segir Stefán Yngvason, endurhæfingarlæknir og formaður starfsstjórnar Reykjalundar, um hlutaúttekt embætti landlæknis á Reykjalundi. Skýrslan var kynnt í gær fyrir starfsfólki stofnunarinnar.
Í henni kom meðal annars í ljós að óánægja starfsfólks mátti rekja til margar samverkandi þátta. Þrátt fyrir ólgu á meðal starfsfólk kom hún ekki niður á faglegu starfi stofnunarinnar, að því er fram kom í frásögnum sjúklinga í skýrslunni.
Spurður um hvaða ábendingar, sem settar eru fram í skýrslunni, verði unnið með segist Stefán ekki getað bent á tiltekna þætti umfram aðra. Næsta mál á dagskrá verði að setjast niður með framkvæmdastjórninni og fara yfir ábendingarnar og vinna með þær næstu vikur og fram á vetur. Lykilatriði verði að vinna náið með starfsfólkinu eins og kom skýrt fram í skýrslunni að væri ákjósanlegt að gera.
Stefán segir að fátt hafi komið á óvart í skýrslunni. Í henni kemur meðal annars fram að starfsfólk taldi að framkoma stjórnar SÍBS gagnvart starfsfólki Reykjalundar hafi ekki verið „lipur“.
Bent er á í skýrslunni að tryggja þurfi að að stjórnir frjálsra félagasamtaka, í þessu tilviki SÍBS, sem eru á samningi við SÍ um veitingu heilbrigðisþjónustu hlutist ekki til um faglegan rekstur slíkra stofnana. Slíkt má skilyrða í samningi við SÍ. Spurður hvort starfsstjórnin muni leggja áherslu á að fara eftir þessari ábendingu við stjórn SÍBS, segir Stefán að „það munum við eflaust gera.“ Fundur með stjórn SÍBS er á döfinni en tekið skal fram að skýrsla embættisins var kynnt í gær.
„Það er í mörg horn að líta á stóru heimili. Við munum vinna þetta þétt og fast á næstu vikum,“ segir Stefán ennfremur.
Magdalena Ásgeirsdóttir, formaður læknaráðs Reykjalundar, er ánægð með úttekt embætti landlæknis. Almenn ánægja er með hana á meðal starfsfólks. Magdalena var ein af þeim sem óskaði eftir aðkomu heilbrigðisráðherra að málum Reykjalundar eftir að stjórn SÍBS rak fyrrverandi forstjóra og framkvæmdastjóra lækninga í október.
„Þetta er góð úttekt sem var unnin fljótt og vel á stuttum tíma,“ segir Magdalena. Starfsandinn á Reykjalundi er góður eftir að þriggja manna starfsstjórn, sem heilbrigðisráðherra skipaði, tók við fyrr í þessum mánuði.