Vill fleiri starfsmenn vegna málaþunga

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.

Héraðssaksóknari óskar eftir að starfsmönnum á rannsóknarsviði embættisins verði fjölgað um sex í byrjun næsta árs. „Núverandi starfsmannafjöldi dugar ekki til að sinna öllum þeim rannsóknarverkefnum sem embættið hefur á hendi.“ Þetta kemur fram í minnisblaði sem Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari sendi til dómsmálaráðuneytis og mbl.is er með undir höndum. Rúv greindi fyrst frá

Tekið er fram að þetta er lágmarksfjölgun og mögulega verði starfsmönnum fjölgað um tvo til viðbótar „á síðari stigum ef verkefnastaða gefi tilefni til“ og fjöldinn verði endurmetinn að tveimur árum liðnum. Tilefnið er umræða um mál Samherja og áhrif þess á verkefnisstöðu embættisins. Nú bíða um samtals 100 mál rannsóknar en að jafnaði eru til rannsóknar 50 — 70 mál.

„Af þeim 100 málum sem bíða rannsóknar eru um 60 skattamál. Það er mikill málaþungi af skattamálum sem HS verður að afgreiða mjög hratt vegna krafna um málshraða sem leiðir af dómum Mannréttindadómstóls Evrópu,“ segir í minnisblaðinu.  

Áætlaður meðalkostnaður fyrir hvert starf er 15 milljónir króna og heildarkostnaður áætlaður samtals 90 milljónir króna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert