Vissu ekki hverjir voru raunverulegir eigendur reikninganna

DNB bankinn.
DNB bankinn. Af vef DNB

Það tók norska bankann DNB nokkur ár að loka umdeildum bankareikningum. Sýna skjöl sem norska ríkisútvarpið NRK og RÚV hafa undir höndum að DNB vissi ekki hverjir voru raunverulegir eigendur reikninga sem tengjast meintu peningaþvætti vegna Samherjamálsins.

NRK greinir frá þessu, en upplýsingarnar er að finna í gögnum sem WikiLeaks birtir í kvöld og sem NRK, fréttaskýringaþátturinn Kveikur og Stundin eru að vinna úr. Fram kemur á vef RÚV að málið verði til umfjöllunar í Kveik í kvöld.

Að því er fram kemur á vef NRK eru tölvupóstar, bankayfirlit, áhættumat og upplýsingar um viðskiptavini meðal þess sem er að finna í skjölunum.

Eru upplýsingarnar sagðar sýna hvernig Samherji og dótturfélög fyrirtækisins sendu og tóku á móti stórum fjárhæðum frá skattaskjólum, m.a. Dubaí og Marshall-eyjum.

Mál Samherja og DNB hafa vakið mikla athygli í Noregi, en samkvæmt bankalögum ber  bankastofnunum að láta yfirvöld vita að telji þær bankareikninga nota til saknæmra hluta.

DNB hefur þegar greint NRK frá því að reikningum tveggja viðskiptavina hafi verið lokað árið 2018, en bankinn neitaði að gefa upp nöfn þeirra.

NRK segir skjölin sem birt hafa verið nú hins vegar sýna að um sé að ræða fyrirtækin Cape Cod, sem er skráð á Marshall-eyjum og móðurfélag þess JPC Shipmanagement, sem áður var skráð á Kýpur. Segir NRK dótturfyrirtæki Samherja Esja Seafood Limited og Noa Pelagic Ltd. hafa millifært upphæðir að andvirði 477 milljóna norskra króna  (um 6,4 milljarða íslenskra kr.) til Cape Cod  í gegnum bankareikninga hjá DNB.

DNB segir sér ekki heimilt að tjá sig um málefni viðskiptavina sinni, en að málið sé til skoðunar. „Það er of snemmt að segja til um það hvort að reglur bankans hafi verið brotnar, en augljóslega er það eitt af því sem við erum að rannsaka,“ sagði Thomas Midteide yfirmaður samskiptasviðs DNB.

„Komi í jós að DNB hafi ekki staðið sig, þá eigum við í engum erfiðleikum með að taka þeirri gagnrýni.“

NRK segir umfang viðskipta fyrirtækja Samherja hjá DNB hafa verið verulega mikið, en frá árinu 2008 hafi um 29 milljarðar norskra kóna farið í gegnum reikninga þeirra hjá bankanum.

Þær bankaupplýsingar sem NRK sé búið að skoða til þessa sýni að fyrirtækið noti bankann líka fyrir millifærslur sem séu fyllilega í samræmi við hefðbundna starfsemi sjávarútvegsfyrirtækis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert