Ætla má að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sé ekki par sátt við niðurstöðu fótboltaleiks kvöldsins þegar Liverpool og Napoli skildu jöfn 1:1 í næstsíðustu umferð E-riðils í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu á Anfield. Liverpool náði ekki að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitunum.
Á þingi fyrr í dag skellti hún um hálsinn Liverpool-trefli við umræður um atkvæðagreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár. Hún sveipaði honum um sig í miðri ræðu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála- og iðnaðarráðherra, um fyrrgreind fjárlög næsta árs.
Katrín er gallharður stuðningsmaður Liverpool. Trefilinn ku hún víst hafa fengið í afmælisgjöf frá eiginmanni sínum í febrúar á þessu ári. Tilefni var ærið í dag að flíka treflinum.
Fjárlög næsta árs voru samþykkt á Alþingi á sjötta tímanum í kvöld með 31 atkvæði þingmanna stjórnarflokkanna. Allar breytingatillögur minnihlutans voru felldar.