Engin ástæða til að örvænta

Ólafur Sindri Helgason, yfirhagfræðingur Íbúðalánasjóðs.
Ólafur Sindri Helgason, yfirhagfræðingur Íbúðalánasjóðs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Engin ástæða er til að örvænta þrátt fyrir að markaðurinn og hagkerfið hafi hægt á sér eftir mikið hagvaxtarskeið. Þetta sagði Ólafur Sindri Helgason, yfirhagfræðingur Íbúðalánasjóðs, á Húsnæðisþingi sem fram fer á Hilton Reykjavík Nordica.

Nokkur viðvörunarmerki eru á lofti, þar á meðal áframhaldandi fækkun ferðamanna, fjölgun fólks á atvinnuleysisskrá og lækkandi hagvaxtarhorfur í helstu viðskiptalöndum. Þrátt fyrir það er spáð bjartari horfum og því óþarfi að hafa of miklar áhyggjur af stöðunni sem er núna uppi.

Nýjar íbúðir hafa verið að leiða verðhækkanir frá árinu 2017. Raunverð er hærra í dag en á hápunkti uppsveiflunar fyrir hrun. Vextir hafa lækkað mikið á árinu en lánveitendur hafa á móti hert skilyrði.

Fram kom í máli Ólafs Sindra að fjöldi íbúðaviðskipta hefur dregist saman um í kringum 12% á milli ára en nýjustu tölur benda til þess að  markaðurinn sé að taka við sér með haustinu. Bil milli framboðs og eftirspurnar hefur aukist töluvert frá því á milli áranna 2016 og 2018. Meðalsölutími nýrra íbúða hefur aukist en breyst lítið meðal annarra íbúða.

Mikil aukning hefur verið í meðalsölutíma nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu en nýjar íbúðir eru mjög dýrar í samanburði við þær sem eldri eru. Þrátt fyrir að erlendu vinnuafli í byggingariðnaði hafi fækkað eru enn mjög mikil umsvif í byggingariðnaði og á næstu þremur árum verða um 7.500 nýjar íbúðir fullkláraðar, að sögn Ólafs Sindra.

Brynja Þorgeirsdóttir er kynnir á Húsnæðisþingi.
Brynja Þorgeirsdóttir er kynnir á Húsnæðisþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í takt við skýrslur Seðlabankans

Önundur Páll Ragnarsson, hagfræðingur hjá Seðlabankanum, sagði að það sem fram kom í  máli Ólafs væri nokkuð vel í takt við það sem bankinn hefur bent á í skýrslum sínum um fjármálastöðugleika. Hann sagði að hugtakið „fjármálasveiflur“ þurfi að heyrast oftar. Gera þurfi greinarmun á þeim og hagsveiflum í umræðu um húsnæðismál. „Við erum frekar skammt á veg komin í þessari fjármálasveiflu þó svo að við séum að vera búin með hagsveifluna,“ sagði hann.

Þóra Margrét Þorgeirsdóttir sérfræðingur hjá Íbúðalánasjóði.
Þóra Margrét Þorgeirsdóttir sérfræðingur hjá Íbúðalánasjóði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

23% greiða yfir helming tekna í leigu

Þóra Margrét Þorgeirsdóttir, sérfræðingur hjá Íbúðalánasjóði, steig í pontu og greindi frá skoðanakönnun sem var gerð vegna leiguhúsnæðis. Þar kemur fram að langflestir leigja af einstaklingum á almennum leigumarkaði. Á sama tíma eykst annars konar leigusala. Þetta sagði Þóra Margrét vera jákvæða þróun því þessir leigusalar bjóði upp á húsnæði sem séu almennt hugsuð til langtímaleigu. Tæplega 23% leigjenda greiða yfir helming ráðstöfunartekna í leigu. Mun hærra hlutfall greiðir minna en helming ráðstöfunartekna sinna í leigu, eða 78%. Vaxandi hlutfall leigjenda upplifir húsnæðisöryggi.

Þrátt fyrir jákvæða þróun á mörgum sviðum leigumarkaðarins vill fólk síður vera á honum, samkvæmt könnuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert