Fjárlög næsta árs voru samþykkt á Alþingi á sjötta tímanum í kvöld með 31 atkvæði þingmanna stjórnarflokkanna. Allar breytingatillögur minnihlutans voru felldar.
Sjö greiddu atkvæði gegn frumvarpinu, en nítján þingmenn stjórnarandstöðu sátu hjá. Í þeirra hópi var Andrés Ingi Jónsson, sem sagði sig úr þingflokki Vinstri grænna fyrr í dag.
Þeir sem greiddu atkvæði gegn frumvarpinu voru hins vegar Björn Leví Gunnarsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halldóra Mogensen, Helgi Hrafn Gunnarsson, Inga Sæland, Jón Þór Ólafsson og Þorsteinn Sæmundsson.
Ýmsir kvöddu sér hljóðs við lokaumræðu fjárlaga og gerði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra fjárþörf vegna eftirlits og rannsóknastofnanna m.a. að umtalsefni, en breytingatillaga minnihluta á fjárlögum vegna hennar var meðal þeirra sem feldar voru.
Sagði Áslaug Arna engan þurfa að velkjast í vafa um „að stjórnin muni gangast fyrir því að tryggja þessum stofnunum nægjanlega fjármögnun til að mæta tímabundnu álagi á þessu ári og því næsta og jafnvel lengur ef með þarf.“ Umfang verkefnanna liggi hins vegar ekki nægjanlega vel fyrir á þessu stigi.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingar, sagði myndina vera orðna býsna skýra við gerð þessara „næstsíðustu fjárlaga“ ríkisstjórnarinnar.
„Sú tilraun að mynda stjórn tveggja mjög eðlisólíkra flokka hefur mistekist,“ sagði Logi og kvað það mögulega vera vegna allra málamiðlananna eða þess hve hugmyndasnauð stjórnin sé. „Fjárlögin sýna nánast enga tilraun til að ráðast gegn ójöfnuði. Það er ekki stigið nægilega fast niður þegar kemur að aðgerðum gegn loftslagsvánni og ríkisstjórnin hefur ekki kjark til að mæta þeirri spennandi framtíð sem bíður okkar á næstu árum,“ sagði Logi.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði heildarmyndina sem við blasi nú hins vegar vera þá að á aðeins sex árum sé búið að auka útgjöld ríkissjóðs um helming. „Við hljótum að velta fyrir okkur hvort þess sjáist næg merki í samfélaginu,“ sagði hann.