Viðlegupláss flutningaskipa eykst til muna í Bíldudalshöfn þegar viðlegukantur hafskipabryggjunnar hefur verið lengdur og hluti eldri kants endurnýjaður.
Flutningar um höfnina hafa aukist mjög vegna vaxandi laxeldis og aukinna umsvifa kalkþörungavinnslunnar, að því er fram kemur í umfjöllun um áform þessi í Morgunblaðinu í dag.
Hagtak hf. átti langlægsta tilboð í framkvæmdir við Bíldudalshöfn. Býðst fyrirtækið til að vinna verkið fyrir rúmar 138 milljónir kr. sem er tæplega 16 milljónum kr. undir áætluðum verktakakostnaði. Er nú verið að semja um verkið. Áður var búið að kaupa stálþilið sem rekið verður niður. Efnisvinnsla var boðin út sérstaklega. Lægsta tilboð í hana var 38 milljónir en efnið nýtist í fleiri verk.