Gera athugasemdir við skýrslu um RÚV

Frá framkvæmdum á RÚV-reitnum.
Frá framkvæmdum á RÚV-reitnum. mbl.is/RAX

Reykjavíkurborg fékk ekki tækifæri til að koma athugasemdum við skýrsludrög á framfæri við Ríkisendurskoðun þegar skýrsla um RÚV var á vinnslustigi og hefur í kjölfar útgáfu skýrslunnar komið athugasemdum á framfæri við stofnunina. Ríkisendurskoðun hefur fallist á réttmæti athugasemdanna.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá Reykjavíkurborg þar sem fjallað er um samninga á milli RÚV og Reykjavíkurborgar um lóð Ríkisútvarpsins ohf að Efstaleiti 1.

Í tilkynningu borgarinnar segir að í skýrslunni sé að finna umfjöllun um að ekki hafi verið leitað eftir samþykki Reykjavíkurborgar þegar lóðinni við Efstaleiti var skipt upp við stofnun RÚV ohf., þ.e. milli félagsins og ríkissjóðs.

„Ríkisendurskoðandi óskaði eftir skýringum á þessu við vinnslu skýrslunnar og borgarlögmaður svaraði því bréfleiðis að engin slík uppskipting hefði átt sér stað þar sem Ríkisútvarpið var skráður og þinglýstur eigandi lóðarinnar í heild sinni. Breyting á því hefði krafist samþykkis skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa og gerðar nýrra skilmála um hvora lóð fyrir sig auk fleiri atriða,“ segir í tilkynningu borgarinnar.

Enn fremur segir í tilkynningunni að borgin hafi gengið til samninga við RÚV um uppbyggingu lóðarinnar án þess að gera kröfu um þátttöku í stofnkostnaði innviða eða kostnaði við að gera lóðina byggingarhæfa.

Ríkisendurskoðun tekur ekki mið af því í ábendingum sínum að RÚV þurfti að bera kostnað sem nam hálfum milljarði við að gera lóðina byggingarhæfa, vegna þess að götur og aðrir innviðir innan lóðar á svæðinu eru greiddir af RÚV en ekki Reykjavíkurborg. Það er því röng ályktun að RÚV hafi ekki greitt hlutdeild í innviðum eða kostnað við að gera byggingareiti hæfa til uppbyggingar, enda stangast ábending ríkisendurskoðanda á við upphæðir og upplýsingar á bls. 32 í skýrslunni. Þar að auki fékk Reykjavíkurborg hluta byggingarréttarins sem varð til með nýju deiliskipulagi í sinn hlut og  framkvæmdaaðili á reitnum greiddi 523 milljónir króna í gatnagerðargjöld eins og skýrt var tekið fram í samkomulaginu,“ segir í tilkynningunni.

Það sem hafi vakið fyrir borginni með áðurnefndum samningi, líkt og öðrum, var að tryggja uppbyggingu á reitnum, þéttingu byggðar og markmið um félagslega fjölbreytni fyrir íbúa í öllum hverfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka