Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerði þá ákvörðun stjórnar RÚV að birta ekki lista með nöfnum umsækjenda um stöðu útvarpsstjóra að umfjöllunarefni á Alþingi í dag undir liðnum störf þingsins.
Magnús Geir Þórðarson lét af starfi útvarpsstjóra um miðjan mánuð og gegnir Margrét Magnúsdóttir, skrifstofustjóri RÚV, nú starfinu tímabundið.
Ástæða þess að stjórn RÚV ákvað að birta ekki listann er sögð sú að það geti hindrað hæfa einstaklinga í að sækja um starfið.
„Þetta er mjög sérstakt í ljósi þess að þessi ágæti fjölmiðill hefur verið upptekinn af gegnsæi annars staðar, sem greinilega gildir ekki um það sjálft,“ sagði Brynjar.
Kvaðst Brynjar þó í sjálfu sér sammála stjórn RÚV um að það geti verið mikilvægt að birta ekki lista umsækjenda. „Ég held að það ætti líka að gilda annars staðar í stjórnsýslunni og dómssýslunni.“
Að sínu mati væri það raunar mikilvægara að mjög hæfir umsækjendur fáist í slík störf, en hjá Ríkisútvarpinu. „Miklu mikilvægara,“ bætti hann við.
Þingheimur ætti því að taka til umfjöllunar hvort ekki eigi að breyta lögunum og heimila með beinum hætti, bæði í stjórnsýslunni og annars staðar, að verði ekki birtur listi umsækjenda.