Ekki er gefið að verð á íbúðum lækki, enda þótt sveitarfélög lækki lóða- og innviðakostnað. Þetta kom fram í máli Björns Karlssonar, forstjóra Mannvirkjastofnunar, sem var á meðal viðmælenda í Sjónarhorni á Húsnæðisþingi Íbúðalánasjóðs og Félagsmálaráðuneytisins sem er haldið á Hilton Reykjavík Hotel.
„Verktakinn hefur alltaf tilhneigingu til þess að selja á markaðsvirði, þótt hann hafi fengið lóðina ódýra,“ sagði hann, að því er kemur fram í tilkynningu.
Mikið hefur verið rætt um áhrif gjaldtöku opinberra aðila á húsnæðisverð. Gagnrýnt hefur verið að kostnaður við lóðir og innviði séu verktökum, og í framhaldinu, húsnæðiskaupendum, þungur í skauti. Þetta kom til að mynda fram í máli Vignis Steinþórs Halldórssonar, stjórnarformanns Mót-X, sem í erindi sínu á Húsnæðisþingi gagnrýndi bæði gjöld og regluverk. „Hvernig getum við byggt hagkvæmt húsnæði þegar gjaldtakan er endalaus á okkur,“ sagði hann, samkvæmt tilkynningunni.
Björn Karlsson sagði sveitarfélög hafa tilhneigingu til að selja lóðirnar „svolítið dýrt“ til að hafa upp í gatnagerðargjöld, eftirlitsgjöld og fleira. „Þó að sveitarfélög fari síðan og lækki lóðaverðið, til þess að það sé hægt að byggja ódýrt, þá selur verktakinn samt alltaf á markaðsvirði,” sagði Björn.