Safetravel hefur tekið í notkun nýtt kort þar sem innlendir og erlendir ferðalangar geta séð allar upplýsingar sem tengjast færð og veðri á einu Íslandskorti á vef Safetravel. Áður voru þrjú kort í notkun.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra ferðamála tók kortið formlega í notkun í upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík í gær. Tilgangur kortsins er að auka öryggi ferðamanna.
Ráðherra sagði við tilefnið „að kortið væri stórt skref í öryggismálum ferðalanga um landið. Það sýndi ferðaaðstæður á landinu hverju sinni svo sem veður, færð á vegum, aðstæður á ferðamannastöðum, vindhviður á vegum, snjóflóðaspá svo eitthvað væri talið,“ segir í tilkynningu frá Landsbjörg.
Hún fagnaði framtakinu og sagði samstarf ráðuneytis og Slysavarnafélagsins Landsbjargar vera dýrmætt, það hefði nýlega verið endurnýjað með auknu fjárframlagi ráðuneytis í Safetravel-verkefnið.
Nú er flækjustigið við það að beina ferðamönnum á nokkra staði til að afla sér upplýsinga horfið, kortið auðveldar ferðamönnum að sækja og fá reglulegar upplýsingar um veður og færð á vegum. Þetta er því stórt skref í að efla öryggismál í landi þar sem aðstæður breytast fljótt og allra veðra er von.
Kortið hefur verið unnið undir hatti Safetravel-verkefnisins, sem leitt er að Slysavarnafélaginu Landsbjörg, í nánu samstarfi við Sjóvá og ráðuneyti ferðamála.