Arnarbakki 2 til 6 hefur fengið andlitslyftingu og er alls kyns spennandi starfsemi að hefjast í húsinu, að því er fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Af því tilefni verður blásið til opnunarteitis á morgun.
Reykjavíkurborg festi í fyrra kaup á fasteignum í Arnarbakka með það að markmiði að flýta fyrir uppbyggingu á reitnum. Auglýst var eftir hugmyndum að starfsemi í húsnæðinu með sérstaka áherslu á samfélagsleg verkefni.
Í Arnarbakka 2 starfa Karlar í skúrum, og SmiRey, sem er smíðastofa fyrir einhverfa karla. Áhugahópur kennara og handverksmanna er með verkstæði og kennslurými og Hjólakraftur á Íslandi er með starfsemi, auk þess sem Hársnyrtistofan Arnarbakka heldur sínu striki og starfar þarna. Í Arnarbakka 4-6 starfrækir Óli Gneisti Sóleyjarson hljóðverið Kistuna og sem fyrr eru Sveinsbakarí og Matvöruverslun Iceland í Arnarbakka.
Við opnunina kynna arkitektar frá Basalt arkitektum frumdrög að endurgerð kjarnans í Arnarbakka og starsfólk frá umhverfis- og skipulagssviði ræða mismunandi útfærslur og möguleika á skipulagi kjarnans.
Opnunarteitið hefst á morgun klukkan 16:00 en nánar má lesa um viðburðinn hér.