Íbúðir og knatthús á Haukasvæðinu

Fyrirhugaðar íbúðir eru vinstra megin á myndinni. Búið er að …
Fyrirhugaðar íbúðir eru vinstra megin á myndinni. Búið er að teikna inn knatthús. Skýringarmynd/ASK arkitektar

Skipulagsyfirvöld í Hafnarfirði hafa kynnt tillögu að breyttu skipulagi Ásvalla; íþrótta- og útivistarsvæðis Hauka. Skilgreind er ný lóð vestan megin íþróttamiðstöðvar, innan íþrótta- og útivistarsvæðis, undir íbúðir.

Í stað byggingarreits fyrir skrifstofu- og þjónustuhús vestan íþróttamiðstöðvar er nú gert ráð fyrir 100 — 110 íbúðum, eða um 10 þúsund fermetrum af byggingarmagni, og er byggingarreitur stækkaður. Gert er ráð fyrir 2 — 5 hæða byggingum.

Norðan og sunnan byggingarreits er gert ráð fyrir um 60 nýjum bifreiðastæðum og um 90 stæða bílakjallara undir byggingum á einni hæð.

Gert ráð fyrir gervigrasvelli

Þá er fjölnota knatthús sem fyrirhugað var að byggja sunnan við gervigrasvöllinn flutt norður fyrir gervigrasvöllinn. Það er gert til að stuðla að betri nýtingu lóðar og samnýtingu starfsfólks.

Í knatthúsi skal gera ráð fyrir gervigrasvelli, 68 x 105 metrar. Miðað er við tvær hlaupabrautir og upphitunarsvæði hringinn kringum knattspyrnuvöllinn. Gert er ráð fyrir um 900 fermetra þjónustubyggingu samtengdri knatthúsinu innan sama byggingarreits. Þjónustubyggingin skal staðsett þannig að hún nýtist bæði gervigrasvelli til suðurs og knatthúsi til norðurs.

Hægt er að kynna sér tillöguna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka