Reglur um mannanöfn rýmkaðar

Áslaug Arna vill rýmka reglur um mannanöfn, heimila ættarnöfn og …
Áslaug Arna vill rýmka reglur um mannanöfn, heimila ættarnöfn og leggja niður mannanafnanefnd. Haraldur Jónasson/Hari

Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir dóms­málaráðherra hef­ur lagt fram til kynn­ing­ar drög að frum­varpi til laga um manna­nöfn með það að mark­miði að rýmka heim­ild­ir til skrán­ing­ar nafna og kenni­nafna. Í sam­ráðsgátt seg­ir að í áformuðu frum­varpi sé áætlað að leggja til að af­nema eða rýmka eins og mögu­legt er þær tak­mark­an­ir sem fel­ist í nú­gild­andi lög­gjöf um manna­nöfn. Ákvarðanir manna­nafna­nefnd­ar hafi þótt benda til þess að lög­gjöf um manna­nöfn sé of ströng og að erfitt geti verið að fá nöfn skráð hér á landi séu þau ekki fylli­lega í sam­ræmi við ís­lensk­an rit­hátt og mál­hefð. Með víðtæk­ari heim­ild­um til skrán­ing­ar nafna sé talið að ekki verði þörf á að hafa manna­nafna­nefnd og því sé ráðgert að leggja til í frum­varp­inu að hún verði lögð niður.

Rétt­ur til nafns njóti vernd­ar

Í um­fjöll­un um til­efni frum­varps­ins seg­ir að því sjón­ar­miði hafi vaxið ásmeg­in að rétt­ur manna til að ráða sjálf­ir nöfn­um sín­um og barna sinna sé rík­ari en hags­mun­ir sam­fé­lags­ins af því að tak­marka þann rétt. Rétt­ur til nafns hafi verið tal­inn njóta vernd­ar 1. mgr. 71. gr. stjórn­ar­skrár­inn­ar og 8. gr. mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu um friðhelgi einka­lífs og verði hann aðeins tak­markaður með laga­heim­ild ef brýna nauðsyn beri til vegna rétt­inda annarra.

Heim­ilt að taka upp ætt­ar­nöfn

Þá seg­ir að gert sé ráð fyr­ir marg­vís­leg­um breyt­ing­um á lög­um um manna­nöfn og lík­legt sé að sú leið verði far­in að fella nú­gild­andi lög úr gildi og setja al­veg ný lög. Áformað er að regl­ur um skrán­ingu eig­in­nafna verði rýmkaðar til muna. Regl­ur um að eig­in­nafn verði að geta tekið eign­ar­fallsend­ingu eða hafa unnið sér hefð í ís­lensku máli verði af­numd­ar, sem og regl­ur um að nafn megi ekki brjóta í bága við ís­lenskt mál­kerfi. Nöfn skuli rituð með bók­stöf­um lat­neska staf­rófs­ins, þar með töld­um viður­kennd­um sér­stöf­um. Heim­ilt verði að taka upp ætt­ar­nöfn en önn­ur kenn­i­nöfn verði í sam­ræmi við ís­lenska hefð um rit­un kenni­nafna. Af­num­in verði tak­mörk á fjölda skráðra nafna. Lagt verður til að manna­nafna­nefnd verði lögð niður enda verði mun minni þörf á hlut­verki henn­ar verði regl­ur um skrán­ingu nafna rýmkaðar.

Um­sagn­ar­frest­ur renn­ur út 13. des­em­ber.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert