Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Seltjarnarnesbæ af kröfu íslenska ríkisins um greiðslu 102 milljóna króna með vísan til samnings aðila um byggingu lækningaminjasafns. Talið var að Seltjarnarnesbær hefði ekki leyst til sín bygginguna sem ætluð var undir safnið þannig að greiðsluskylda hefði myndast samkvæmt samningnum.
Þá var ríkið ekki talið hafa skýrt með fullnægjandi hætti hvers vegna Seltjarnarnesbær ætti að greiða fjárhæðina á grundvelli annarra málsástæðna.
Tildrög málsins eru þau að 27. september 2007 var undirritaður samningur um stofnkostnað, byggingu og rekstur húsnæðis fyrir Lækningaminjasafn Íslands og menningartengda starfsemi. Aðilar samningsins voru menntamálaráðuneytið, f.h. ríkisins, Seltjarnarnesbær, Læknafélag Íslands og Þjóðminjasafn Íslands.
Í 1. gr. samningsins er kveðið á um stofnkostnað og framlög samningsaðila. Segir þar að Alþingi hafi á fjárlögum fyrir árið 2007 heimilað að fasteignin Bygggarðar 7 á Seltjarnarnesi verði seld á markaðsvirði og söluandvirðinu ráðstafað til að reisa safnbyggingu fyrir Lækningaminjasafn Íslands í námunda við Nesstofu á Seltjarnarnesi. Samkvæmt verðmati, dags. 3. maí 2007, var söluandvirði eignarinnar áætlað 110.000.000 og var Seltjarnarnesbær kaupandi eignarinnar.
Í samningnum segir jafnframt að fasteignin Bygggarðar 7 hafi verið keypt fyrir erfðafé Jóns Steffensens, prófessors, sem arfleiddi Læknafélag Íslands að tilteknum 3 eignum með erfðaskrá 1990 og fyrir sérstakt framlag Læknafélags Íslands. Segir í samningnum að Læknafélag Íslands hafi 16. ágúst 2000 fært Þjóðminjasafni Íslands, f.h. menntamálaráðuneytisins, fasteignina til umsjónar og ráðuneytinu jafnframt 12.676.975 kr. en þeirri fjárhæð hafi verið varið til endurbóta á fasteigninni Bygggörðum 7 til hagsbóta fyrir Nesstofusafn.
Í 3. mgr. 1. gr. samningsins er síðan kveðið á um það að Seltjarnarnesbær taki að sér og beri ábyrgð á að reist verði ný safnbygging fyrir Lækningaminjasafn Íslands á safnasvæðinu við Nesstofu á Seltjarnarnesi samkvæmt gildandi aðalskipulagi Seltjarnarness 2006 til 2024, sbr. nánar 2. gr. samningsins. Í því felist að Seltjarnesbær sjái ,,alfarið um og ber ábyrgð á öllum kostnaðarþáttum vegna framkvæmdarinnar.“
Í 7. gr. samningsins segir: „Komi til þess að Seltjarnarnesbær óski eftir að nýta safnbygginguna undir aðra starfsemi en Lækningaminjasafn Íslands skal Seltjarnesbær, nema um annað semjist við menntamálaráðuneyti og Læknafélag Íslands, leysa bygginguna til sín. Skal þá Seltjarnarsbær endurgreiða ríkissjóði þá fjármuni sem lagðir hafa verið í safnbygginguna af erfðafé Jóns Steffensens í formi söluandvirðis fasteignarinnar að Bygggörðum 7, sbr. 1. gr., og skal þeim fjármunum varið í þágu læknaminjasafns skv. nánara samkomulagi menntamálaráðuneytis og Læknafélags Íslands.“
Fyrir lá að málatilbúnaður ríkisins í málinu byggði í aðalatriðum á því að Seltjarnesbæ bæri skylda til að greiða kröfufjárhæðina í málinu með vísan til 7. gr. stofnsamningsins um Lækningaminjasafn Íslands frá 27. september 2007, að því er segir í dómi héraðsdóms.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu, að af gögnum málsins og skýrslum aðila fyrir dómi yrði ekki ráðið að sveitarfélagið hafi nokkru sinni nýtt sér þennan rétt. „Þannig verður ekki fallist á erindi stefnda til menntamálaráðherra, dags. 12. desember 2012, feli sér yfirlýsingu um að stefndi nýti sér kauprétt að byggingunni, enda lýsir erindið aðeins þeirri afstöðu stefnda við lok gildistíma samningsins að hann vilji ekki framlengja samninginn af sinni hálfu.“
Dómstóllinn segir að bærinn hafi því ekki leyst til sín bygginguna sem ætluð var undir safnið þannig að greiðsluskylda hefði myndast samkvæmt samningnum.