Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir til skoðunar að boðuð hlutdeildarlán muni bjóðast fjölskyldum sem misstu húsnæði í hruninu. Með því munu lánin ekki eingöngu bjóðast þeim sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign. Það gæti aftur haft mikil áhrif á fasteignamarkaðinn.
Ragnar Þór situr í starfshópi með ráðherra en fundað var um tillögurnar í fjármálaráðuneytinu í gær. Unnið er að kostnaðarmati. Að hans sögn þarf mögulega að endurskoða lögin svo kröfuhafar geti ekki gert fjárnám í eignum sem keyptar eru að hluta með eiginfjárlánum. Með þeim eignast ríkið hlut í íbúð sem eykur kaupgetu lántakans.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, að hann telji raunhæft að hlutdeildarlánin yrðu í boði frá miðju næsta ári. Það væri hvorki búið að ákveða hámarksfjárhæð lána né hvort þau stæðu aðeins til boða ef um nýbyggingar væri að ræða.
Fjöldi fjölskyldna missti húsnæði sitt í kjölfar efnahagshrunsins. Með leiðréttingunni 2014 var reynt að bæta tjón almennings af verðbólguskotinu sem fylgdi í kjölfarið. Með hlutdeildarlánum er gengið lengra í að bæta upp þetta tjón.