Ljósleiðarinn kominn í Mjóafjörð

Sigfús á Brekku og Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra.
Sigfús á Brekku og Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra.

Brekkuþorp í Mjóafirði var í gær tengt við ljósleiðara og þar með eru allir byggðarkjarnar landsins komnir í samband við þessa mikilvægu þjóðbraut fjarskiptanna.

Mjófirðingar, undir forystu Sigfúsar Vilhjálmssonar, fögnuðu þessum tímamótum með athöfn í gær. Ljósleiðaravæðing í dreifbýli hefur gengið mjög vel á síðustu árum með verkefninu Ísland ljóstengt, sem fjarskiptasjóður hefur umsjón með. Með styrkjum til sveitarfélaga hefur verið unnið frá 2016 að því að tengja ljósleiðara í allar byggðir og sveitabýli landsins.

Verkefnið í Mjóafirði var unnið í samstarfi fjarskiptasjóðs, Neyðarlínunnar, Rarik, Mílu, Fjarðabyggðar og Seyðisfjarðarkaupstaðar. Ljósleiðarinn leysir af hólmi fjallastöð fjarskipta og loftlínu rafmagns. „Það var orðið tímabært að tengja ljósleiðara hingað og ánægjulegt að ljúka hringnum hér,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra fjarskiptamála, í Mjóafirði í gær.

Fjarskiptasjóður og Neyðarlínan ohf. sömdu nýlega um allt að 70 m.kr. framlag sjóðsins til verkefna sem miða að uppbyggingu fjarskiptainnviða utan markaðssvæða. Lagning ljósleiðara til Mjóafjarðar og hringtenging byggðarlaga eystra falla undir þetta samkomulag. Undir sömu formerkjum á svo að leggja ljósleiðara yfir Kjöl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert